Fjórir óku á vegrið á Reykjanesbraut
Fjórir ökumenn óku á vegrið á Reykjanesbraut um helgina vegna hálku á brautinni. Einn þeirra var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar en bifreið hans sat föst utan í vegriðinu.
Þá var nokkuð um minni háttar umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum af sömu sökum.
Einnig bárust lögreglu nokkur símtöl frá ökumönnum þar sem bílar sátu fastir í snjó var þar um erlenda ferðamenn að ræða. Loks var einn ökumaður handtekinn vegna gruns um fíkniefnaakstur og annar vegna gruns um ölvunarakstur.