Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjórir milljarðar fyrir orkuhlut
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 7. júní 2019 kl. 10:57

Fjórir milljarðar fyrir orkuhlut

Lögboðið skuldaviðmið lækkar enn en milljarðarnir fara í niðurgreiðslu skulda. Nú vilja lánastofnanir ólmar lána og endurfjármagna fyrir Reykjanesbæ

Reykjanesbær fær rúma 4 milljarða króna fyrir hlut sinn í Fjárfestingarsjóðnum ORK sem átti rúmlega 12% hlut í HS Orku. Hlutabréfin voru á dögunum seld til félagsins Jarðvarma sem er í eigu nokkurra lífeyrissjóða. Óvissa var um verðmæti eignarinnar en tíminn hefur unnið með Reykjanesbæ og nú er ljóst að sveitarfélagið fær kr. 4.068.821 í sinn hlut við uppgjör sjóðsins. Peningarnir fara allir til niðurgreiðslu skulda.

„Þetta er farsæll endir á máli sem mikil óvissa hefur ríkt um. Þessir peningar verða allir notaðir til að greiða niður skuldir. Um það var samið í viðræðum við kröfuhafa árið 2016,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar en með greiðslu skulda mun lögboðið skuldaviðmið sveitarfélagsins lækka enn frekar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Reykjanesbær mun eignast nokkrar stórar húseignir aftur eins og Hljómahöllina, Íþróttaakademíuna, sem nú hýsir fimleikadeildina og inniaðstöðu Golfklúbbsins, auk golfskálans í Leiru en stór hluti skuldanna er á þessum eignum.

Þessi lækkun skulda setur Reykjanesbæ í betri stöðu og skapar góða möguleika á að fá betri kjör í endurfjármögnun 9 milljarða skuldar sem er síðasti hlekkurinn í endurskipulagninu fjármála bæjarins.

Kjartan Már segir að fyrir örfáum árum hafi fáir viljað lána Reykjanesbæ vegna erfiðrar fjárhagsstöðu en nú sé öldin önnur. „Staðan í fjármálum sveitarfélagsins hefur gjörbreyst og finnum við fyrir miklum áhuga lánastofnana í tengslum við endurfjármögnun í leit okkar að betri vaxtakjörum“ segir bæjarstjórinn.