Fjórir ferðamenn veltu við Grindavík
Lögreglan á Suðurnesjum fékk undir sl. helgi tilkynningu þess efnis að bílvelta hefði orðið í Stóra Leirdal, um það bil 6 – 7 kílómetra austur af Grindavík. Tveir menn voru sagðir slasaðir.
Þarna reyndist um að ræða svokallaðan fjórhjólabíl (buggy) með fjórum erlendum ferðamönnum innanborðs sem hafði oltið á slóða austan við Ísólfsskála. Mennirnir tveir sem kenndu sér meins voru fluttir undir læknishendur, annar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en hinn á bráðamóttökuna í Fossvogi. Ekki reyndist vera um alvarleg meiðsl að ræða.