Fjórir aðilar á Suðurnesjum fengu styrk úr samfélagssjóði Isavia
Isavia hefur nú úthlutað úr samfélagssjóði sínum og hlutu þrettán verkefni styrk að þessu sinni. Fjórir aðilar á Suðurnesjum af þrettán í heildina, fengu styrk. Veitt er úr sjóðnum tvisvar sinnum á ári. Við val á styrkþegum er áhersla lögð á umhverfismál, mannúðarmál, forvarnir, flugtengd málefni, listir, menningu og menntamál og barst sjóðnum fjöldinn allur af umsóknum. Voru styrkirnir afhendir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á dögunum.
„Okkur hjá Isavia finnst afar mikilvægt að láta gott af okkur leiða og eru úthlutanir úr samfélagssjóði okkar stór þáttur í því. Það er einnig ánægjulegt að geta styrkt hin ýmsu verkefni á Suðurnesjunum í nánd við Keflavíkurflugvöll en þar eins og annarsstaðar á landinu er af fjölmörgum frambærilegum verkefnum að taka. Við hlökkum til að fylgjast með gangi mála og sjá hvernig styrkveitingarnar úr sjóðnum munu hjálpa þessum þrettán verðugu verkefnum sem hlutu styrkinn að þessu sinni,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.
Verkefnin á Suðurnesjum sem fengu styrk eru:
Vinnuskóli Reykjanesbæjar og FS fengu styrk til að kynna verknám fyrir 9. bekk í gegnum vinnuskólann.
Steinbogi kvikmyndagerð fékk styrk við gerð heimildarmyndarinnar „Guðni á trukknum“ sem fjallar um Guðna Ingimundarson, heiðursborgara Garðs.
Söngvaskáld á Suðurnesjum fengu styrk við framkvæmd á tónleikaröð sinni.
Fjölsmiðjan á Suðurnesjum fékk styrk fyrir sérverkefni sem ætlað er að styrkja samstöðu og uppbyggingu.