Fjordvik í brotajárn
Sementsflutningaskipið Fjordvik, sem strandaði í Helguvík 3. nóvember í fyrra, fer í brotajárn. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Stefnt er að því að skipið yfirgefi Hafnarfjarðarhöfn í síðasta lagi um miðjan febrúar. Skipinu verður fleytt inn í siglandi flotkví og flutt til niðurrifs í Belgíu.
Áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar tókst að bjarga fimmtán manns frá borði við erfiðar aðstæður. Sigmaður þyrlunnar, Guðmundur Ragnar Magnússon, hlaut titilinn Maður ársins á Suðurnesjum 2018 fyrir störf sín á vettvangi björgunarinnar.
Fjordvik náðist af strandstað tæpri viku síðar og dregið til hafnar í Keflavík þar sem skipið var gert klárt fyrir flutning til Hafnarfjarðar, þangað sem skipið var dregið 15. nóvember.