Fjórar hraðlestir í förum á milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar?
Hugmyndir að hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur voru kynntar á opnum fundi á Ásbrú í dag. Hraðlest gæti hafið starfsemi árið 2022 miðað við að farið verði í verkefnið strax á næsta ári. Stofnkostnaður yrði á bilinu 95-105 milljarðar króna.
Runólfur Ágústsson ráðgjafi fór yfir möguleika hraðlestarsamgangna á þessari leið en hann hefur verið að skoða verkefnið fyrir Kadeco - Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, verkfræðistofuna Eflu, fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans, Isavia, Ístak, Reykjavíkurborg, fasteignafélagið Reiti og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum. Markmið verkefnis var að kanna kostnað og hagkvæmni þess að byggja og reka hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur í einkaframkvæmd.
Forsendur hraðlestar eru að ferðatími verði innan við 20 mínútur að hámarki og að ferðatíðni verði á 15 mínútna bili á annatíma.
Undirbúningstími vegna hraðlestar er 4 ár og framkvæmdatíminn er 3 ár. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er gert ráð fyrir 3-4 milljónum farþega á ári 2023 en 5-6,5 milljónum ársfarþega 10 árum síðar. Stofnkostnaður vegna hraðlestar er á bilinu 95-105 milljarðar króna en gert er ráð fyrir um 10 milljarða ársbrúttótekjum við opnun.
Hraðlestin mun notast við tvöfalda teina eftir yfirboði frá Keflavík að Hafnarfirði. Einfaldur teinn liggur svo um göng frá Straumsvík að miðborg Reykjavíkur. Lengd leiðar er 46 km, þar af 12,3 í göngum. Meðalhraði lestarinnar er u.þ.b. 180 km/klst. Hámarkshraði rúmlega 200 km/klst.
Fjórar lestareiningar sem geta í upphafi annað allt að 1.000 manns á klukkustund í hvora átt. Möguleiki á að a.m.k. tvöfalda þá getu síðar.
Hugmyndin gerir ráð fyrir að aðeins séu tvær lestarstöðvar, önnur sem yfirbyggð lestarstöð við flugstöðina, hin neðanjarðarstöð við gangaendann í miðborg Reykjavíkur.
Fjórir mismunandi farþegahópar myndu nýta sér lestarsamgöngurnar. Fyrst skal nefna erlenda ferðamenn á leið til og frá landinu, þá íslenska ferðamenn í sömu erindum. Þriðji hópurinn eru svokallaðir skiptifarþegar og loks almennir innlendir farþegar.
Flutningur innanlandsflugs úr Vatnsmýri til Keflavíkurflugvallar er ekki forsenda lestar en hún skapar stóraukin sóknarfæri í innanlandsflugi. Farþegar í innanlandsflugi myndu litlu bæta við heildarfarþegafjölda. Styttri tengitími milli alþjóða- og innanlandsflugs myndu skapa innanlandsfluginu ný tækifæri en fáir erlendir ferðamenn nýta innanlandsflugið sem samgöngukost.
Samkvæmt þeim gögnum sem kynnt voru í dag eru mikil samfélagsleg áhrif, sérstaklega á Suðurnesjum þar sem líklegt er að veruleg áhrif yrðu á lífskjör, tækifæri og fasteignaverð.
Runólfur sagði að hraðlestin gæti breytt samkeppnisstöðu ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Aukin tækifæri til bættrar samkeppnisstöðu á móti. Mikil miðsækni í t.d. hótelgistingu út frá miðborg Reykjavíkur. Gjörbreyttar aðstæður varðandi ferðatíma þangað og áreiðanleika ferða færir hótel og gistihús á svæðinu nær miðjunni.
Þá talaði hann einnig um jöfnun fasteignaverðs á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu. Lestarstöðvar hafa oft afar jákvæði áhrif á verðmæti fasteigna í nágrenni þeirra.
Nýlegt dæmi frá London um nýja lestarstöð þar sem verð hækkaði í nágrenninu um 30% á í kjölfar ákvörðunar um slíka framkvæmd árið 2008. Þá er spáð 40% hækkun til viðbótar fram að opnun stöðvarinnar árið 2018.
Á fundinum á Ásbrú í dag komu fram mjög skiptar skoðanir á hugmyndinni um hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur. Áhyggjur manna beinast helst að ferðaþjónustu á Suðurnesjum og að með lest sé verið að flytja ferðafólk beint út af svæðinu. Þá var einnig talað fyrir því að með því að tvöfalda Reykjanesbrautina alla leið frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og til Reykjavíkur þá væri hægt að stytta ferðatíma enn frekar og með þreföldun brautarinnar væri einnig hægt að auka ferðahraða umtalsvert og nálgast þau markmið sem sett eru með ferðatíma hraðlestar á milli þessara staða.
Nánar verður rætt við Runólf Ágústsson hér á vf.is í fyrramálið.