Fjör á árshátíð Njarðvíkurskóla
Árshátíð Njarðvíkurskóla var haldin föstudaginn 11.mars í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur. Húsið var fullskipað nemendum og áhorfendum eins og sæmir á góðri stundu og var salurinn fallega skreyttur.
Nemendur oddatölubekkja sýndu ýmis skemmtiatriði með miklum tilþrifum og valinkunnur hópur nemenda úr 8.-10.bekk sýndi flott dansatriði. Aðrir nemendur komu með bakkelsi og gos og bornar voru fram veitingar á sal skólans eftir atriðin í íþróttahúsinu. Margir tóku saman höndum með að gera árshátíðina sem glæsilegasta og er talið að um 800 manns hafi verið saman komnir á árshátíð Njarðvíkurskóla þennan eftirminnilega dag.
Stjórn skólans færir öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn varðandi árshátíðina bestu þakkir fyrir aðstoðina. Sérstakar þakkir eru færðar starfsfólki íþróttahúss fyrir alla vinnuna og aðstoðina sem þau veittu og foreldrum fyrir góðar undirtektir með veitingar.