Fjölsmiðja stofnuð á Suðurnesjum
Fjölsmiðja á Suðurnesjum hefur verið stofnuð með 36 milljónir króna í stofnfé. Þetta er þriðja Fjölsmiðjan á landinu. Hinar tvær eru á Akureyri og í Reykjavík og hefur starfsemi þeirra gefið góða raun. Hlutverk Fjölsmiðjunnar er þríþætt en henni er ætlað að vera allt í senn vinnumarkaðsúrræði, félagslegt úrræði og menntunarúrræði, að sögn Gissurs Péturssonar forstjóra Vinnumálastofnunar.
Markmiðið með starfi Fjölsmiðjunnar er að hjálpa ungi fólki á aldrinum 16-24 ára að finna sitt áhugasvið, öðlast starfsreynslu og þar með auka möguleika þess í atvinnulífinu eða í námi. Leitast er við þátttakendur eigi kost á hagnýtri vinnu og fræðilegri þjálfum og áhersla lögð faglega verkþjálfun. Einnig er markmiðið að efla sjálfstraust hjá ungu fólki til að það sé betur í stakk búið að takast á við margvísleg verkefni lífsins.
Að sögn Gissurs Péturssonar er reiknað með að á bilinu 20 – 25 einstaklingar verði í Fjölsmiðjunni á Suðurnesjum á hverjum tíma, í fjórum til fimm deildum. Hann segir mismunandi hversu langan tíma hver og einn starfi í Fjölsmiðjunni, allt eftir því hvar á vegi þátttakendur eru staddir. Aldrei verði þó um að ræða lengri tíma en 18 mánuði.
Gissur segir að ekki þurfi að fjölyrða um mikilvægi þess að úrræði af þessu tagi séu til staðar á Suðurnesjum enda sé atvinnuleysi á landinu hvergi meira.
Stofnaðilar Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum eru Rauði Kross Íslands, sem leggur fram 15 milljónir króna í stofnfé, Reykjanesbær, sem leggur fram 10 milljónir króna, Vinnumálastofnun, sem leggur fram sömu upphæð, VSFK með 600 þúsund króna stofnfé, Verslunarmannafélag Suðurnesja með 200 þúsund og Félag iðn- og tæknigreina með 200 þúsund.
Ný stjórn var skipuð á stofnfundinum og er verkefni hennar á næstunni í því fólgið að ráða starfsfólk, finna húsnæði undir starfsemina, gerar rekstrar- og fjárhagsáætlun og samninga við kaupendur þjónustunnar, sem eru t.d. sveitarfélögin, VMST, Menntamálaráðuneytið og ef til vill fleiri aðila.
VFmynd/elg - Stofnaðilar Fjölsmiðjunnar skrifuðu undir skipulagsskrá hennar á þriðjudaginn.