Fjölskylduhjálp með jólamarkað
Anna Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Fjölskylduhjálp Íslands á Suðurnesjum, segir stöðuna hjá skjólstæðingum sínum vera mjög slæma. Þá hafi þeim fjölgað mikið sem sækja sér aðstoð til Fjölskylduhjálpar og sérstaklega hafi fjölgað í hópi eldra fólks.
Um þessar mundir stendur Fjölskylduhjálpin fyrir jólamarkaði að Hafnargötu 90 sem er opinn alla daga vikunnar frá kl. 13-18. Markaðurinn er opinn fyrir alla, en hann er hugsaður sem fjáröflun fyrir samtökin. Fyrirtæki og einstaklingar hafa verið dugleg við að leggja markaðnum til vörur, þannig að fólk ætti að geta fengið keypt bæði jólaföt og gjafir á markaðnum. Hægt er að fá fatnað frá 100 kr., yfirhafnir frá 500 kr. og síðkjóla á 3000 kr. Þá er ýmiskonar jóladót og skraut til sölu.
Anna gagnrýnir að sveitarfélögin á Suðurnesjum hafi ekki komið og stutt við Fjölskylduhjálpina en þau nýti sér hins vegar að senda fólk þangað í matargjafir. „Bæði kirkjan og félagsþjónustan vísa grimmt á okkur en vilja svo ekkert af okkur vita,“ segir Anna og vill sjá sveitarfélögin á Suðurnesjum styðja við bakið á Fjölskylduhjálpinni.
Matarúthlutun er tvisvar í mánuði hjá Fjölskylduhjálpinni á Suðurnesjum og að auki eru neyðarúthlutanir þess á milli þar sem 40-60 einstaklingar eða fjölskyldur fá hjálp. Anna segir fólkið vera á öllum aldri, en það sé að aukast að eldra fólk komi og sæki sér mataraðstoð.
Í kringum 240 fjölskyldur koma í hverja matarúthlutun. Fyrir jólin í fyrra voru 750 matarúthlutanir og búist er við að fjöldinn verði enn meiri fyrir þessi jól.
Anna sagði að eitt sorglegasta dæmið sem hún hafi heyrt er af einstaklingi sem borðar þrjár heitar máltíðir í mánuði en þess á milli lifir hann á því að drekka kaffi. Þá segist hún einnig heyra af eldri borgurum sem taki ekki þátt í félagsstarfi vegna þess að það hafi ekki fjárráð til.
Í Nettó er pakkahorn þar sem hægt er að skilja eftir pakka fyrir skjólstæðinga Fjölskylduhjálpar og að auki er þar söfnunarbaukur.