Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjölskyldudagur helgaður umhverfinu
Mánudagur 28. febrúar 2005 kl. 09:52

Fjölskyldudagur helgaður umhverfinu

Nýverið var fjölskyldudagur í Njarðvíkurskóla. Dagurinn var helgaður umhverfinu og nemendur buðu einhverjum úr fjölskyldu sinni, ömmu og afa eða mömmu og pabba, að koma í heimsókn í skólann frá kl. 10-12.  Gestirnir byrjuðu á því að hlýða á stutta dagskrá á sal þar sem nokkrir nemendur sögðu frá því sem verið er að vinna í umhverfismennt í skólanum.  Að dagskránni lokinni fór hópurinn í kennslustofur og fylgdist með því sem nemendur voru að vinna.
Dagskráin á sal hófst á því að Eyjólfur Auðunsson, nemandi í 3. HR, sagði frá fernuskolun sem nemendur og kennarar eru með í 3. bekk og er þetta annað árið sem þau skola drykkjarfernur og senda í endurvinnslu. Tvær stúlkur úr 7. GG, þær Dagmar Traustadóttir og Dalrós Þórisdóttir, sögðu frá endurvinnslu á pappír sem árgangurinn þeirra er að vinna og var sýnd stuttmynd sem tekin var í tíma hjá þeim. Björn Traustason í 10. KA sagði frá þrifum á skólalóðinni sem nemendur og kennarar sjá um. Farið er út og skólalóðin þrifin einu sinni í viku og fer hver bekkur u.þ.b. tvisvar á vetri í þetta verkefni. Þá kynnti Svavar Skúli Jónsson, nemandi úr 7. GG, niðurstöður úr umhverfiskönnun sem send var heim til foreldra í síðustu viku en það voru nemendur úr 7. bekk sem unnu úr niðurstöðunum.
Þess má geta að Njarðvíkurskóli er núna í Comeniusar verkefni sem er samstarfsverkefni skóla í Evrópu og er þema verkefnisins „Umhverfismenntun“ (Environmental Education) og tengist þema fjölskyldudagsins því verkefni.
Mjög góð mæting var hjá fjölskyldum nemenda og tókst dagurinn einstaklega vel.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024