Fjölskyldu og félagssvið innleiðir upplýsingaöryggi
Fjölskyldu - og félagssvið Reykjanesbæjar (FFR) hefur innleitt öryggisstefnu í upplýsingamálum til þess að tryggja og samræma meðhöndlun persónuupplýsinga.
Starfssemi FFR hefur vaxið mikið undanfarin ár og samfara því hefur hún orðið sífellt meira háð upplýsingatækni og vinnslu rafrænna gagna. Þetta hefur kallað á aukna ábyrgð hjá stjórnendum og starfsmönnum í að tryggja öryggi og meðhöndlun persónugreinanlegra gagna hjá stofnunni.
Í innleiðingu upplýsingaöryggis felst mótun öryggisstefnu og útgáfa verklagsreglna í sérstakri handbók starfsmanna um upplýsingaöryggi. Nýverið lauk innleiðingunni með almennum kynningarfundi fyrir starfsmenn FFR og tengdra sviða. Með þessu tryggir FFR að sviðið fari eftir lögum og reglum um persónuvernd, segir í tilkynningu frá FFR.
Leitað var aðstoðar Þekkingar hf. við innleiðinguna en Oddur Hafsteinsson, ráðgjafi á sviði upplýsingaröryggis frá Þekkingu, annaðist utanumhald og stýringu á verkefninu.
Á myndinni má sjá Árna Sigfússon, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, skrifa undir öryggisstefnu FFR. Með honum eru Hjördís Árnadóttir framkvæmdastjóri Fjölskyldu- og félagssviðs, Rannveig Einarsdóttir yfirfélagsráðgjafi og Oddur Hafsteinsson frá þekkingu hf. sem hafðu umsjón með innleiðingunni.