Fjölskyldu- og félagsmálaráði verði hlíft við miklum niðurskurði
Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu og sveitarfélaginu telur Fjölskyldu- og félagsmálaráð Reykjanesbæjar (FFR) ekki forsendur til þess að skera mikið niður hjá ráðinu. Þessa dagana er unnið að niðurskurði í stjórnsýslu bæjarins og var ráðum og nefndum nýlega verið gert að koma með tillögur í þeim efnum.
Í bókun sem samþykkt var samhljóða á síðasta fundi FFR er bent á að í drögum að fjárlögum ríkisins sé gert ráð fyrir 25% niðurskurði hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þar að auki sé gert ráð fyrir að skerða enn frekar framfærslutekjur til fjölskyldna m.a. með lækkun barnabóta og skerts fæðingarorlofs. Allur niðurskurður á velferðarþjónustu muni leggjast á íbúa sveitarfélagsins og auka þeim útgjöld.
„Ráðið gerir sér grein fyrir því að þörf er á niðurskurði og hagræðingu í þjónustu sveitarfélagsins. Þjónustan sem FFR veitir er ekki þar undanskilin. Starfsemin þolir takmarkaðan niðurskurð sérstaklega í ljósi alvarlegs ástands á svæðinu sem mun auka útgjöld bæjarsjóðs.
Atvinnuleysi á Suðurnesjum er langmest á landinu þar að auki bætist við krafa um mikinn niðurskurð hjá HSS. Ráðið telur eðlilegt í ljósi alls þessa að FFR verði hlíft við eins og kostur er að taka á sig skerðingu. Álag á starfsemina mun óhjákvæmilega halda áfram að vaxa og hafa í för með sér kostnaðarauka og aukið álag á starfsfólk,“ segir ennfremur í bókun FFR.