Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 16. september 1999 kl. 15:42

FJÖLSKYLDU- OG FÉLAGSMÁLARÁÐ ANDVÍGT VEITINGU VÍNVEITINGALEYFI CASINO

Fjölskyldu- og félagsmálaráð Reykjanesbæjar er á móti því að Jóni Magnúsi Harðarsyni verði veitt áfengisveitingaleyfi fyrir skemmtistaðinn Club Casino í Grófinni í Keflavík. Ráðið tók umsókn Jóns M. Harðarsonar fyrir á síðasta fundi sínum sl.mánudag, en ráðið er aðeins umsagnaraðili því endanleg ákvörðun verður tekinn á bæjarstjórnarfundi nk. þriðjudag. Jón uppfyllir öll skilyrði sem þarf til útgáfu áfengisveitingaleyfis skv. áfengislögum en í greinagerð ráðsins segir: „Fjölskyldu- og félagsmálaráð getur þrátt fyrir það ekki mælt með útgáfu áfengisveitingaleyfis til hlutaðeigandi veitingastaðar vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar er ætlað að fari fram skv. yfirlýsingum rekstraraðila í fjölmiðlum og víðar. Það er álit fjölskyldu- og félagsmálaráðs að sá rekstur sem ætlaður er á umræddum veitingastað sé ekki til þess fallinn að styrkja þá málaflokka sem ráðinu er ætlað að styðja. Þvert á móti telur ráðið miklar líkur á að slíkur staður muni auka á þann vímuefnavanda sem fyrir er og skerða siðgæðisvitund íbúa Reykjanesbæjar og vísar máli sínu til stuðnings til þeirrar opinberu umræðu sem verið hefur í tengslum við rekstur áþekkra veitingastaða í Reykjavík. Fjölskyldu- og félagsmálaráð er stolt af þeim mörgu forvarnarverkefnum sem unnið hefur verið að í Reykjanesbæ á undanförnum árum og þeim undirtektum sem sú vinna hefur hlotið meðal almennings. Ráðið telur að hlúa þurfi frekar að slíku starfi og leita allra tiltækra leiða í forvörnum, með bæjaryfirvöld í broddi fylkingar. Fjölskyldu- og félagsmálaráð beinir því jafnframt til bæjarstjórnar að samhliða reglugerð um áfengisveitingaleyfi í sveitarfélaginu, verði settar reglur varðandi rekstur skemmtistaða í Reykjanesbæ.”
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024