Fjölskyldan saman og samferða heim á Ljósanótt
Ljósanótt í Reykjanesbæ er nú haldin í 13. sinn sinn en hátíðin hefst í dag. Frá upphafi hefur verið haft að leiðarljósi að Ljósanótt er fjölskylduhátíð og við skipulagningu hennar er lögð áhersla á að dagskráratriði höfði til allra fjölskyldumeðlima. Fjölskyldu- og félagsþjónusta Reykjanesbæjar, Útideild Reykjanesbæjar, Lögreglan í Keflavík og FFGÍR, Foreldrafélög og ráð grunnskólanna í Reykjanesbæ, munu saman vera með vakt á Ljósanótt eins og hefur tíðkast hingað til. Gert er ráð fyrir að börn og ungmenni séu í fylgd foreldra sinna eða annarra fullorðinna þar til hátíðarhöldum lýkur og fari svo heim.
Yfir hátíðina verður skipulega fylgst með og gripið inní ef börn eða ungmenni eru ein á ferli og/eða eru undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Börnin verða flutt í öryggismiðstöð þar sem starfsmenn á vakt munu taka á móti þeim, haft verður samband við foreldra og óskað eftir að þeir sæki börn sín. Þessar aðgerðir eru fyrst og fremst til stuðnings foreldrum í uppeldishlutverki sínu og starfsfólkið í öryggismiðstöðinni mun leggja sig fram við að aðstoða þau börn og ungmenni sem þangað koma, þar til foreldrar sækja þau. Undanfarin ár hefur sami háttur verið hafður á og foreldrar alla jafna tekið þessu fyrirkomulagi vel, brugðist skjótt við og náð í börnin sín. Ákveðin hætta fylgir því að börn séu úti eftir lögboðin útivistartíma og því er mikilvægt að foreldrar standi saman og leyfi börnum sínum ekki að vera úti eftirlitslausum og á það jafnt við um Ljósanótt sem önnur kvöld.