Fjölskyldan safnar fyrir öndunarvél
Þorbjörg Friðriksdóttir í Sandgerði þarf á hjálp öndunarvélar að halda vegna lungnaþembu. Af þeim sökum þarf hún að dvelja langdvölum á HSS. Um er að ræða svokallaða ytri öndunarvél sem Þorbjörg þarf að nota hluta úr sólarhringnum. Það er hins vegar ekki auðvelt viðfangs þar sem aðeins ein slík vél er til á stofnuninni. Þorbjörg hefur því ákveðið hefja söfnun til að fjármagna kaup á annarri vél fyrir HSS.
Að sögn Þorbjargar er ytri öndunarvélin henni lífsnauðsynleg. Af þeim sökum hefur dvalið á stofnuninni meira eða minna í eitt og hálft ár.
„Þegar maðurinn minn er í vaktafríi tekur hann mig heim og kemur mér til baka á sjúkrahúsið á kvöldin því ég þarf að sofa við vélina. Þegar ég kom hérna í eitt skiptið var vélin farin og ég náttúrulega fraus. Þá var önnur manneskja í vélinni. Því þurfti að fá vél senda úr Reykjavík um kvöldið svo ég gæti sofið. Þá um nóttina datt mér í hug að standa fyrir söfnun til að kaupa aðra vél inn á HSS. Ég nefndi þetta við móður mína sem hvatti mig til að gera þetta og fyrsta framlagið í söfnunina kom frá henni. Í framhaldinu tók ég mig til sendi bréf á félagasamtök og bæjarfélög því margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Þorbjörg.
Hún segir viðbrögð hafa verið ágæt en betur má ef duga skal til að markmiðið náist.
„Grunnútgáfa af vélinni kostar um 1700 þúsund en með öllum búnaði kostar hún um 2,5 milljónir og er markmiðið að fjármagna þau kaup. Þannig myndi vélin nýtast betur og nýtast fleirum með lungnasjúkdóma, því hún er ekki bara fyrir mig,“ segir Þorbjörg.
Fjölskylda Þorbjargar stendur með henni að söfnunni og hafa stofnað Facebook síðu vega hennar á slóðinni: http://www.facebook.com/home.php?#!/event.php?eid=369307628311&ref=ts
Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta lagt inn á söfnunarreikning sem hefur verið stofnaður. Hann er: 542-14-401515, kt. 061051 – 4579.
--
VFmynd/elg – Þorbjörg, fjölskylda og vinir safna fyrir öndunarvél fyrir HSS.