Fjölskylda í Reykjanesbæ sendi Íbúðalánasjóði bréf - Hætt að borga
Fjölskylda í Reykjanesbæ sendi í gær bréf til forstjóra Íbúðalánasjóðs og segja í bréfinu að þau hafi tekið þá ákvörðun að hætta að greiða af húsnæðisláni sínu. Lánið sem fjölskyldan tók var upphaflega 23 milljónir en er nú komið upp í 32 milljónir króna.
Fjölskyldan metur íbúðina á 22 milljónir króna og lagði 10 milljónir í húsið strax í upphafi. Jafnframt lagði fjölskyldan 6 milljónir króna í að laga húsið og ganga frá lóð. Fjölskyldan telur að þeir peningar séu tapaðir. Bréfið í heild sinni má lesa hér að neðan og lýsir vel þeim vanda sem margar íslenskar fjölskyldur eiga við að etja hér á landi um þessi misseri.
„Við undirrituð eigendur og íbúar að (eign okkar) í Reykjanesbæ höfum tekið þá erfiðu ákvörðun fyrir okkar hönd og 4ra manna fjölskyldu okkar miðað við fyrirliggjandi aðstæður og gögn að gefast upp á að borga af verðtryggðum lánum vegna heimilis okkar og verður það þá að hafa sinn gang með uppboð það á heimili okkar sem búið er að boða til vegna þessara verðtryggðu og stökkbreyttu skulda okkar sem voru vel viðráðanlegar í upphafi fyrir okkur.
Þessa erfiðu ákvörðun tökum við eftir að hafa hugsað málið í lengri tíma en nú er svo komið að við sjáum ekki neinn tilgang með að borga af eigninni og með því inn í þá hít sem greiðslur á verðtryggðum lánum eignarinnar eru í raun fyrir okkur. Þar fyrir utan höfum við ekki efni á því að lifa mannsæmandi, hófsömu og eðlilegu lífi og getum ekki boðið börnunum okkar upp á það sem við viljum bjóða þeim upp á sem er ekki ásættanlegt og ætti ekki að vera raunin á Íslandi árið 2012.
Hluti af þessari erfiðu ákvörðun er vegna þess að við sjáum enga framtíð í því að greiða í hítina og einnig að við sjáum engar lausnir í sjónmáli og erum í raun búinn að gefast upp á að stjórnvöld leysi þann vanda sem við okkur og allt of mörgum fjölskyldum blasir. Eignaverð á Suðurnesjunum hefur lækkað mikið frá því við keyptum húsið á 33 milljónir árið 2007 en við lögðum þá 10 milljónir fram við kaupin á eigninni ásamt því að húsið var ekki fullbúið þannig að við höfum greitt eftir kaupin um 6 milljónir sem fóru m.a. í að gera þakkant á húsið, klára baðherbergið, gera lóðina klára og setja upp góðan sólpall því við ætluðum að vera í þessu húsi þangað til við færum á elliheimili.
Einnig hafa komið í ljós gallar á eigninni sem verktakinn ætti að taka ábyrgð á en verktakafyrirtækið er farið á hausinn þannig að þangað er ekkert að sækja lengur og því mundum við sjálf þurfa að greiða fyrir þá vinnu sem því fylgir. Þessir gallar eru meðal annars að stærstum hluta hönnunargallar vegna glugga og þaks hússins og er áætlaður kostnaður vegna þessa galla að sögn smiðs um 5 milljónir varlega áætlað sem búið er að taka tillit til í því söluverði sem við setjum hér fram.
Húsið okkar er í dag sennilega um 22 milljón króna virði á góðum degi miðað við ástand fasteignamarkaðarins og þá galla sem á eigninni eru ef þá á annað borð tækist að selja með þessum göllum, áhvílandi verðtryggðar skuldir eru nú komnar upp í um 32 milljónir en við tókum um 23 milljón króna lán við kaupin. Nú er svo komið að við erum búin að tapa þeim 10 milljónum sem við lögðum í kaupin, einnig þeim 6 milljónum sem við lögðum í að klára húsið og svo skuldum við að auki um 10 milljónir umfram söluverðið ef og þó við gætum selt húsið.
Samtals er því tap okkar ef við reiknum dæmið til enda í dag miðað við að selja húsið okkar um 26 milljónir og ef við ákveðum að vera áfram í húsinu þá gerist ekkert annað en að við skuldum meira og meira því vísitölubinding verðtryggðu lánanna okkar gerir það að verkum að lánin okkar hækka í hverjum mánuði og er það ekki síst sú staðreynd sem fær okkur til að taka þessa erfiðu ákvörðun fyrir okkur og fjölskyldu okkar auk vantrúar á að nokkuð verði gert fyrir okkur eða aðra í sömu aðstöðu.
Ef svo færi að okkur yrði boðin einhver ásættanleg niðurstaða í mál þetta þá erum við til í að skoða það en þá bara á þeim forsendum að við hefðum einhverja von til þess að vera þannig sett með fjölskylduna að það væri einhver von um mannsæmandi framtíð. Þá framtíð teljum við okkur ekki vera með á meðan verðtryggð lán á eigninni okkar eru í því fjármálaumhverfi sem stjórnvöld og fjármálafyrirtæki bjóða okkur upp á með fyrirliggjandi hættu á óðaverðbólgu sem fer þá beint inn á hækkun á höfuðstól lána í gegnum verðtryggingu lánanna okkar.“