FJÖLNOTA ÍÞRÓTTAHÚS RÍS Í KEFLAVÍK: TILBÚIÐ Í JANÚAR ÁRIÐ 2000
Fjölnota íþróttahús með knattspyrnuvelli í fullri stærð verður byggt á gömlu bæjarmörkum Keflavíkur og Njarðvíkur. Það er Verkafl, dótturfyrirtæki Íslenskra aðalverktaka sem byggir húsið og verður það tekið í notkun í janúar árið 2000. Samningar milli bæjaryfirvalda og Verkafls eru á lokastigi og á bæjarráðsfundi í gær var lagður fram leigusamningur en gert er ráð fyrir að Reykjanesbær leigi húsið til 30 til 35 ára og er árleg afborgun af því á milli 25 og 27 milljónir króna. Verkafl mun bæði kosta og sjá um byggingu hússins og viðhalda því fyrstu fimm árin. Reykjanesbær getur síðan hvenær sem er keypt húsið.Jónína Sanders, formaður bæjarráðs sagði að ljóst væri að þessi stóri draumur margra bæjarbúa væri nú að rætast. Hún sagði að bæjarfulltrúar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hefðu verið sammála um að láta þetta mál verða að veruleika í ljósi hagstæðra samninga sem náðust við Verkafl en eins og greint var frá í byrjun ársins var öllum tilboðum sem bárust í byggingu hússins frá tveimur aðilum, Verkafli og Ármannsfelli, hafnað. Í framhaldi af því var rætt við Verkafl með hliðsjón af einu fjögurra tilboða fyrirtækisins. Jónína sagði að tilkoma hússins ætti eftir að gjörbreyta íþróttaaðstöðu í bænum og breyta miklu fyrir bæði knattspyrnumenn og aðrar íþróttagreinar, sem og að hafa keðjuverkandi áhrif í framtíðinni til góðs fyrir þjónustuaðila. Þegar húsið verður tekið í notkun munu tímar losna í hinum íþróttahúsunum sem geta þá nýst öðrum íþróttagreinum, m.a. fyrir stúlkur sem hafa verið hornreka hvað það varðar. Húsið verður stálgrindarhús og knattspyrnuvöllurinn í því verður með gervigrasi af bestu gerð. Húsið verður hitað upp og sagði Jónína sem dæmi að ef 15 gráðu frost væri úti yrði 15 gráðu hiti inn í því en í byrjun var sú hugmynd reifuð að vera ekki með hita inni í húsinu. Í samningaviðræðunum var það meðal atriða sem náðust inn.