Fjölmennur borgarafundur í Grindavík um löggæslumál
Grindvíkingar fjölmenntu á borgarafund sem bæjarstjórn Grindavíkur efndi til í Festi í gærkvöldi um málefni löggæslunnar í Grindavík. Þann 1. mars nk. eru fyrirhugaðar þær breytingar á löggæslumálum í þessu 2300 manna bæjarfélagi að lögreglumenn sem hafa staðið vaktir á lögreglustöðinni í Grindavík munu þess í stað standa vaktir á lögreglustöðinni í Keflavík og verði öllum útköllum og eftirliti stjórnað þaðan. Lögreglustöðin í Grindavík verður þó starfrækt áfram með einum manni, aðstoðaryfirlögregluþjóninum Sigurði M. Ágústsyni.Grindvíkingar eru mjög ósáttir við þessar fyrirhuguðu breytingar og kom það skýrt fram á borgarafundinum. Fjölmargir tóku til máls og var það einróma í máli Grindvíkinga að verið væri að skerða þjónustu lögreglunnar og öryggi Grindvíkinga. Talsmenn lögreglunnar segjast hins vegar vera að auka þjónustu við Grindavík og um leið að styrkja lögregluliðið á öllum Suðurnesjum.Dómsmálaráðherra var á fundinum og lagði hún til að fulltrúar lögreglu og bæjaryfirvalda myndu ræða málin betur og finna lausn sem væri ásættanleg þó svo hún myndi styðja fyrirhugaða breytingu löggæslumála.