Fjölmennt á félagsfundi VS og röð út úr húsi
Nú er nýhafinn fjölmennur félagsfundur í Verslunarmannafélagi Suðurnesja. Fundurinn er haldinn í Bergi í Hljómahöll en um kl. 20 í kvöld, þegar fundurinn hófst, var röð út úr Hljómahöllinni.
Aðeins þeir sem eru skráðir félagsmenn í Verslunarmannafélag Suðurnesja hafa aðgang að fundinum og því þarf fólk að gera grein fyrir sér við innganginn og merkt er við fólk í félagatali.
Fundarefnið er framlenging skilafrests á framboðsgögnum til allsherjarkosningar í Verslunarmannafélagi Suðurnesja.
Samkvæmt ákvörðun stjórnar og trúnaðarráðs frá 5. febrúar var samþykkt að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu við kjör stjórnar og trúnaðarráðs sbr. 11. gr laga félagsins. Auglýst var eftir framboðum og bárust tveir listar sem merktir voru A listi stjórnar og trúnaðarráðs og B listi.
B listi uppfyllti ekki, að mati kjörstjórnar, þau skilyrði sem sett eru fyrir framboði og úrskurðaði kjörstjórn að einungis einn listi væri löglega fram borinn A listi.
Fundarefnið í kvöld varðar framkvæmd allsherjaratkvæðagreiðslu við kosningu stjórnar og trúnaðarmannaráðs og ósk um framlengdan framboðsfrest.