Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjölmenni við útför Steindórs Sigurðssonar
Föstudagur 19. nóvember 2004 kl. 15:27

Fjölmenni við útför Steindórs Sigurðssonar

Fjölmenni var við útför Steindórs Sigurðssonar fyrrverandi forseta bæjarstjórnar Njarðvíkur sem fram fór frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag.
Steindór Sigurðsson fæddist á Siglufirði 13. mars 1943.  Hann lést 12. nóvember síðastliðinn.   Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Anton Einarsson vélstjóri og bóndi á Fitjum, Lýtingsstaðahreppi Skagafirði, fæddur 12. apríl 1906, dáinn 27. nóvember 1968 og Helga Steindórsdóttir húsmóðir og bóndi, fædd 21. júlí 1918, dáinn 1. ágúst 1994.  Sigurður og Helga eignuðust sjö börn saman en Sigurður átti einnig tvö börn áður, Hafliði og Anna Sigurbjörg.  Steindór var elstur systkinanna; Margrét Sigurjóna, Anna, Heiða, Sigurður, Sigmundur Einar og Ástríður Helga.

Steindór ólst upp í Skagafirði, en frá 1962 átti hann heima í Njarðvík síðar Reykjanesbæ.  Hann kvæntist Kristínu Guðmundsdóttur 24. júlí 1965 og eiga þau fjögur uppkomin börn: 1)Helga fædd 5. ágúst 1963, maki Einar Steinþórsson, börn: Steinþór og Steindór, 2)Guðmundur fæddur 24. apríl 1967, maki Marie Belinda Michel, börn: María Árelía og Kristinn, 3)Ingibjörg Salóme fædd 24. maí 1968, maki Sveinbjörn Bjarnason, börn: Tinna Karen, Hekla Dögg, Helgi Óttarr og Samúel Skjöldur og 4)Sigurður fæddur 18. september 1971, maki Fríða María Sigurðardóttir, börn Steindór, Stefán Páll og Hanna María.    

Steindór starfaði í fyrstu við landbúnað, fiskvinnslu og við akstur bifreiða, en síðan sem framkvæmdastjóri eigin fyrirtækis í tæp 20 ár.  Starfsemi þess var á sviði hópferða, sérleyfisbifreiða og gistireksturs, eða allt frá árinu 1970 til ársins 1989 er hann seldi fyrirtækið Sérleyfisbifreiðum Keflavíkur (SBK) sem var í eigu Keflavíkurbæjar.  Hann tók þá við stöðu framkvæmdastjóra SBK sem hann gengdi í tæp 10 ár.  Árið 1998 söðlaði Steindór um og gerðist sveitarstjóri Öxarfjarðarhrepps, þar gengdi hann ýmsum störfum á vegum sveitarfélagsins s.s. hafnarstjóri, umhverfisstjóri og hafði eftirlit með öllum framkvæmdum, einnig í flestum sameiginlegum nefndum sveitarfélaganna.  Steindór rak um tíma litla verslun í Reykjavík ásamt sonum sínum en hafði nýverið hafið störf aftur hjá SBK hf.

 Steindór starfaði talsvert að félagsmálum, en helstu félagsstörf sem hann gengdi eru þessi:
 Á árunum 1982 - 1986 var hann varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn Njarðvíkur og bæjarfulltrúi frá árinu 1986.  Á árunum 1986 - 1990 var hann varaformaður bæjarráðs Njarðvíkur og forseti bæjarstjórnar 1988-1990, formaður ferðamálanefndar Njarðvíkur 1990-1992.  Þá var hann formaður Umhverfis- og fegrunarnefndar og varamaður í stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (S.S.S.) í Bláfjallanefnd og varamaður í byggingarnefnd Njarðvíkur frá árinu 1982 til 1990.  Steindór hefur átt sæti í ýmsum nefndum s.s. nefnd um samgöngumál, skógræktarátak, stjórn símenntunar á Suðurnesjum og í Þingeyjarsýslum.  Einnig kom hann að stofnun Ferðamálasamtaka Suðurnesja, en í stjórn þeirra samtaka átti hann sæti frá því þau voru stofnuð þar til hann fluttist norður.  Steindór átti sæti í Ferðamálaráði Íslands frá 1989 - 1991 og var formaður stjórnar B.S.Í. hópferðabíla og stjórnarformaður BSÍ (Umferðarmiðstöðvarinnar í Reykjavík) um árabil.  Reykjanesbær varð til 1994, við sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna og átti Steindór þess kost að koma þar að undirbúningi og vera í framlínunni við að setja saman hið nýja sveitarfélag.  Hann sat í fyrstu bæjarstjórn og bæjarráði Reykjanesbæjar, sem varaformaður bæjarráðs og varaforseti bæjarstjórnar.  Þá sat hann í nafnanefnd þegar nafn var fundið á nýtt sveitarfélag.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024