Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjölmenni við útför séra Ólafs Odds
Föstudagur 30. desember 2005 kl. 16:18

Fjölmenni við útför séra Ólafs Odds

Útför séra Ólafs Odds Jónssonar var gerð frá Keflavíkurkirkju í dag. Það voru þeir séra Sigfús B. Ingvason og Dr. Einar Sigurbjörnsson sem jarðsungu. Jarðsett var í Gufuneskirkjugarði. Fjölmenni var við útförina og margir úr prestastétt, ásamt biskupum, núverandi og fyrrverandi.

Ólafur Oddur Jónsson, sóknarprestur í Keflavík, fæddist í Reykjavík 1. nóvember 1943. Hann lést 21. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jón Ásgeir Brynjólfsson, f. 22. nóvember 1909, d. 11. júlí 1981, og Kristín Ólafsdóttir, f. 22. október 1910, d. 25. maí 1993. Systur Ólafs Odds eru: a) Bryndís Jóna, f. 27. maí 1939, maki Gunnlaugur Kalman Stefánsson; b) Ásta, f. 10. mars 1942, maki Óli Ágústsson; c) Margrét, f. 6. ágúst 1948, maki Torfi Halldór Ágústsson.

Ólafur Oddur kvæntist Eddu Björk Bogadóttur, f. 11. nóvember 1944. Þau skildu. Synir þeirra eru: 1) Birgir Örn, f. 13. október 1969, sambýliskona Helga Ragnarsdóttir, f. 27. janúar 1971, börn þeirra eru Edda Björk, f. 23. júlí 1998, og Jón Gestur Ben, f. 20. apríl 2001. 2) Ólafur Ragnar, f. 25. nóvember 1977. 3) Kristinn Jón, f. 23. janúar 1981, sambýliskona Bergþóra Hallbjörnsdóttir, f. 18. janúar 1985.

Ólafur Oddur varð stúdent frá MR 1964, og cand. theol. frá Háskóla Íslands 1970. Hann lagði stund á framhaldsnám við Union Theological Seminary, guðfræðideild Columbia-háskólans í New York, og lauk þaðan mastersprófi. Hann gegndi lögreglustörfum á háskólaárum sínum og var kennari í Langholtsskóla í Reykjavík í nokkur ár eða þar til hann var skipaður sóknarprestur í Keflavík 1975. Á fyrstu árum sínum var hann stundakennari við skóla þar syðra. Í mörg ár var hann stundakennari við guðfræðideild HÍ og kenndi þar aðallega siðfræði, auk þess að vera prófdómari við deildina. Auk þess gegndi hann um tíma stjórnarstörfum fyrir Siðfræðistofnun HÍ.

Ólafur Oddur gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir kirkjuna, bæði innan prófastsdæmisins og á vegum biskupsembættisins. Hann tók virkan þátt í þjóðmálaumræðu og eftir hann liggja margar greinar í blöðum og tímaritum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024