Fjölmenni við útför Margeirs Jónssonar
Mikið fjölmenni var við útför Margeirs Jónssonar, fyrrverandi útgerðarmanns og framkvæmdastjóra frá Keflavíkurkirkju í dag.
Sr. Sigfús B. Ingvason jarðsöng og Davíð Ólafsson, söng einsöng. Meðal útfarargesta var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson.
Margeir lést á Landsspítalanum 18. júlí sl. Hann var 88 ára, fæddur 1916.
Margeir var í umsvifamiklum atvinnurekstri í Keflavík um langt árabil og oft kenndur við Röst sem var nafn fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækis hans. Margeir kom víða við í félagsmálum í bæjarfélaginu og átti m.a. sæti í bæjarstjórn Keflavíkur.
Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín.
VF-mynd/Páll Ketilsson