Fjölmenni á þrettándagleði
Þrettándagleði og álfabrenna fór fram í blíðskaparveðri í Reykjanesbæ í gær þar sem var sungið og dansað í félagskap Grýlu, Leppalúða og fleiri.
Margir lögðu leið sína í Reykjaneshöllina þar sem boðið var upp á andlitsmálun og skemmtidagskrá sem var að þessu sinni fyrr um daginn að ósk foreldra. Að henni lokinni var gengið fylktu liði að Iðavöllum þar sem kveikt var í álfabrennu og jólin kvödd með glæsilegri flugeldasýningu í umsjón Björgunarsveitarinnar Suðurnes.
Eitthvað var ungviðið hrætt við Grýlu gömlu en flest þeirra höfðu verið stillt um jólin svo þau höfðu ekkert að óttast. Leikið var á harmónikku við bálið og álfadrottning og álfakóngur heilsuðu upp á gesti.
VF-myndir/Hilmar Bragi