Fjölmenni á aldarafmæli húss draumanna
Séra Skúli S. Ólafsson flutti kveðjupredikun á aldarafmæli kirkjunnar.
Fjölmenni sótti hátíðarguðsþjónustu og 100 ára vígsluafmæli Keflavíkurkirkju í gær. Þetta var jafnframt síðasta messa séra Skúla S. Ólafssonar sóknarprests en hann hefur gengt því starfi síðastliðin níu ár. Að guðsþjónustu lokinni var afmælishald í safnaðarheimilinu Kirkjulundi þar sem kirkjugestir þáðu veitingar. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar afhenti við það tækifæri 1 milljón króna í orgelsjóð.
Auk Skúla tóku prestarnir Sigfús B. Ingvason og Erla Guðmundsdóttir þátt í guðsþjónustunni og Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands var viðstödd og ávarpaði samkomuna. Kór Keflavíkurkirkju var í stóru hlutverki og flutti m.a. hluta Sanctus tónverksins eftir Karl Jenkins. Þá söng Felix, ungmennakór kirkjunnar eitt lag. Ragnheiður Ásta Magnúsdóttir formaður sóknarnefndar flutti ávarp og fór lítillega yfir magnaða sögu kirkjunnar sem nú fagnar aldarafmæli.
Sr. Skúli Ólafsson kom víða við í kveðjupredikun sinni en þar sagði hann m.a. að
Keflavíkurkirkja var í raun réttnefnt hús draumanna og að þeir birtust með ýmsu hætti. sjómenn sem sigldu inn Víkina áttu fyrst af öllu mannlegum verkum að sjá turn kirkjunnar bera við himinn.
„Já, við erum í slíku stórhýsi að sambærileg bygging á okkar dögum hlyti að rúma yfir 4000 manns í sætum. Fyrir einni öld voru bæjarbúar aðeins 500 talsins og þó var pláss fyrir 250 manns í hinum nýreista helgidómi. Í dag erum sóknarbörnin 8000. Við erum á slíku listasafni að það sem fyrir augun ber hefur staðið framar flestu því öðru sem fólkið hafði augum litið. Hversu margir höfðu áður séð jafn stórfenglegt málverk og það sem stendur hér við altarið? Hvað með þá húsalist sem einkennir helgidóminn, nýklassíska bygginguna, teiknaða og mælda samkvæmt reglum gullnisniðs og formum hinna sígildu hefða listarinnar.“
Og sóknarpresturinn fjallaði um krossinn: „Kirkjan er kross og í krossinum býr svo margt sem snertir mennskuna í okkur, kallar okkur til ábyrgðar og fær okkur til að horfa mót hinu ókomna. Jafnvel draumum sem virðast fjarlægir,“ sagði Skúli m.a. en predikun hans má sjá í heild með því að smella hér.
Hér má líka sjá fleiri ljósmyndir.
Sr. Skúli flutti kveðjupredikun sína á 100 ára hátíðarguðsþjónustunni.
Frú Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands ávarpaði samkomuna og óskaði Keflvíkingum til hamingju með aldarafmæli kirkjunnar. Þá óskaði hún Sr. Skúla velfarnaðar í nýju brauði.
Kirkjugestum var boðið í afmæliskaffi að lokinni messu.
Þétt setinn bekkurinn og auka stóla þurfti til að koma öllum fyrir í kirkjunni.