Fjölmenni á afmælisfundi Kaupfélags Suðurnesja
Kaupfélag Suðurnesja fagnaði 60 ára afmæli sínu á aðalfundi félagsins í Stapa á fimmtudag. Á fundinum voru komin saman aðalfundarfultrúar, makar auk sérstakra gesta, en eiginlegur afmælisdagur er þann 13. ágúst.
Á dagskrá voru, auk venjulegra aðalfundastarfa, kynning á skýrslum félagsstjórnar, framkvæmdastjóra og framtíðarnefndar.
Magnús Haraldsson, stjórnarformaður fór yfir síðasta ár í rekstri KSK og Samkaupa. Síðustu misseri hafa verið viðburðarrík hjá fyrirtækinu sem er sífellt að efla rekstur sinn og sameinaðist m.a. Kaupfélagi Borgfirðinga á síðasta ári.
Magnús sagðist vonast til þess að enn fleiri kaupfélög sæju sér hag í því að ganga inn í fyrirtækið á næstunni.
Þá keypti fyrirtækið Lyfjaverslunina Lyfju, sem hefur um 250 starfsmenn og rekur fjölda verslana hérlendis og í Litháen, og Heilsuhúsið.
Með þessu er fyrirtækið að stuðla að meiri fjölbereytni í rekstri og dreifa áhættunni.
Næstur í pontu var Guðjón Stefánsson, framkvæmdastjóri sem kynnti uppgjör Kaupfélagsins fyrir síðasta ár og kom þar í ljós að velta fyrirtækisins var rúmlega 16 milljarðar á síðasta ári, mest hjá Samkaupum, um 10.5 milljarðar.
Þrátt fyrir góða útkomu fyrir síðasta ár sagði Guðjón útlitið ekki bjart fyrir árið 2005 þar sem verðstríð stórverslananna hefur komið illa niðri á fyrirtækinu.
Hann lofaði hins vegar að fyrirtækið muni ekki láta undan heldur blása til sóknar til að sporna við óheillaþróuninni sem „græðgisvæðingin“, eins og hann orðaði það, hefur valdið. Ef ekkert verði að gert muni tveir stórir aðilar sitja einir að markaðnum og slíkt fyrirkomulag sé ekki æskilegt.
Þegar Guðjónhafði lokið máli sínu afhenti fyrirtækið fjórum völdum líknarfélögum rausnarlegar gjafir. Félag aðstandenda Alzheimerssjúklinga á Suðurnesjum fékk 500.000 sem og Félag aðstandenda Alzheimerssjúklinga í Hafnarfirði og Krabbameinsfélag Suðurnesja. Þá fékk Þroskahjálp á Suðurnesjum 1 milljón króna í gjöf.
Skúli Skúlason, starfsmannastjóri Samkaupa fór því næst yfir störf framtíðarnefndar en fyrirtækið hefur verið að velta fyrir sér ýmsum nýjungum í rekstri.
Skúli sagði að til dæmis hafi komið til greina að taka virkari þát í atvinnulífinu á svæðinu, taka beinan þátt í málefnum aldraðra auk þess að koma af meiri krafti inn í nýsköpun í atvinnurekstri.
Skúli dvaldi sérstaklega við málefni aldraðra, en til greina kemur að KSK hefji rekstur öryggis- og þjónustuíbúða, en gert er ráð fyrir allsherjar þjónustumiðstöð fyrir aldraða þar sem Njarðvíkurvöllur er í dag, rétt við verslun Samkaupa.
Allar þessar hugmyndir eru þó enn á þróunarstigi og á eftir að útfæra þær á næstu mánuðum.
Eftir að fundi var slitið snæddu fundarmenn glæsilega máltíð í Stapa í boði Kaupfélagsins.
VF-myndir/Þorgils