Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjölmenn útför Ómars Jóhannssonar frá Útskálakirkju
Föstudagur 19. mars 2004 kl. 18:51

Fjölmenn útför Ómars Jóhannssonar frá Útskálakirkju

Fjölmenni var við útför Ómars Jóhannssonar, sem gerð var frá Útskálakirkju í dag. Það var Hjörtur Magni Jóhannsson, fríkirkjuprestur og fyrrum sóknarprestur að Útskálum, sem jarðsögn Ómar, en þeir Ómar og Hjörtur Magni voru góðir félagar og áttu margar stundir saman þar sem Ómar barðist við þann erfiða sjúkdóm sem krabbameinið var honum.
Ólafur Ómar Jóhannsson fæddist á Seyðisfirði 31. desember 1951. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík hinn 10. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Anna Birna Björnsdóttir húsmóðir, f. 28.9. 1921 á Stóra-Steinsvaði í Hjaltastaðaþinghá, d. 30.1. 1998, og Jóhann Jónsson kennari, f. 27.9. 1918 á Seyðisfirði, d. 1.4. 1994. Ómar var fjórði í röð sjö systkina. Systkini hans eru Ásta Borg, f. 5.7. 1940, búsett í Hveragerði, Björn Bergmann, f. 6.3. 1945, búsettur að Lyngási í Rangárþingi, Margrét, f. 13.9. 1946, búsett í Keflavík, Guðný Helga, f. 18.9. 1947, búsett í Garði, Unnur, f. 7.6. 1953, búsett í Reykjavík, og Þórný, f. 9.11.1960, búsett í Keflavík. Ómar kvæntist 1. maí 1975 Ingu S. Stefánsdóttur bankastarfsmanni, þau skildu. Dóttir þeirra er Sesselja Sigurborg lyfjafræðingur, f. 4.2. 1975, maki Halldór Eyjólfsson verkfræðingur, f. 15.8. 1972, sonur þeirra er Ómar Ingi, f. 5.8. 2003. Ómar kvæntist hinn 26. febrúar sl. eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðnýju Rannveigu Reynisdóttur, f. 8.8. 1954. Foreldrar hennar eru Hjördís Pétursdóttir, f. 4.6.1934, og Reynir Haukur Hauksson, f. 23.7.1933. Guðný á tvö börn, þau eru: 1) Hjördís Erla Benónýsdóttir, f. 1.4.1974, maki Sveinn Helgi Geirsson, f. 28.7. 1962, og börn þeirra eru Sindri Geir, f. 15.11. 1996, og Sóldís Guðný, f. 27.9. 2000. 2) Lúðvík Kjartan, f. 19.10. 1986, sem Ómar gekk í föður stað.
Ómar lauk gagnfræðaprófi 1968 og starfaði síðan m.a. í fiskvinnslu, hjá Verslunarbankanum, hjá Tré-X, sem framkvæmdarstjóri Golfklúbbs Suðurnesja, í Fríhöfninni og rak myndbandaleigurnar Heimabíó og Bónusvideo í Funalind. Ómar tók virkan þátt í ýmsum félagsstörfum þ.ám. hjá Víði í Garði og Golfsambandi Íslands. Jafnframt skrifaði hann fjórar revíur fyrir Leikfélag Keflavíkur og eina fyrir Litla leikfélagið í Garði ásamt ýmsum vísum, smásögum o.fl.

Ljósmynd: Páll Ketilsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024