Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjölmenn útför heiðursborgara
Laugardagur 7. febrúar 2009 kl. 19:14

Fjölmenn útför heiðursborgara

 
Útför Sigrúnar Oddsdóttur heiðursborgara í Garði var gerð frá Útskálakirkju í dag. Athöfnin var fjölmenn og var útförinni sjónvarpað yfir í íþróttamiðstöðina í Garði þar sem fjöldi fólks fylgdist einnig með útförinni.
Sólveig Sigrún Oddsdóttir fæddist í Móhúsum í Garði, 11.október 1916. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Garðvangi 30. janúar síðastliðinn.
Sigrún bjó fyrstu æviárin í Móhúsum en fluttist svo með foreldrum sínum að Presthúsum þar sem hún bjó þar til þau Hjálmar hófu búskap á Nýjalandi. Þar bjó hún öll sín æviár að undanskildum síðustu rúmum sjö árum sem hún dvaldi á hjúkrunarheimilinu Garðvangi.
Sigrún var fyrst og fremst mikil húsmóðir og hélt með mikilli natni og reglusemi utan um heimili sitt og fjölskyldu. En hún lét sig málefni sveitarfélagsins mikið varða og sat í hreppsnefnd í tólf ár, oftast sem ritari. Einnig var hún formaður fegrunar- og umhverfisnefndar um árabil og hafði mikil áhrif á fegrun byggðarlagsins.
Sigrún var gerð að heiðursborgara Gerðahrepps árið 2001. Félags-, menningar- og forvarnarmál voru henni mjög hugleikin. Hún var gæslumaður barnastúkunnar Siðsemdar í þrjátíu ár og starfaði innan Stórstúku Íslands, formaður Kvenfélagsins Gefnar í tuttugu og eitt ár, starfaði í Slysavarnadeild kvenna í Garði, hún söng með kirkjukór Útskálakirkju í 40 ár og starfaði í sóknarnefnd um árabil auk þess sem hún sá um þrif og búnað kirkjunnar.
Sigrún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2002 fyrir störf sín að bindindis- og félagsmálum.
 
---
Myndirnar tók Hilmar Bragi þegar kista Sigrúnar var borin úr kirkju. Það voru kvenfélagskonur sem báru kistuna út úr kirkjunni en þar tóku afkomendur við og báru kistuna í kirkjgarðinn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024