Fjölmenn minningarstund við Reykjanesbraut
- Ökumenn spyrji sig: „Er bifhjólamaður í nánd?“
Bifhjólaklúbburinn Ernir stóð fyrir fjölmennri minningarstund á Reykjanesbraut við Hafnaveg nú í kvöld þar sem Jóhannesar Hilmars Jóhannessonar var minnst. Hann lést í umferðarslysi á gatnamótunum fyrir viku.
Óskar Húnfjörð, formaður Arna, flutti ávarp þar sem hann hvatti til vitundarvakningar í umferðaröryggismálum, að bifhjólafólk klæddist sýnilegri fatnaði. Þá hvatti hann ökumenn til að spyrja sig spurningarinnar „Er bifhjólamaður í nánd?“.
Eftir ávarp Óskars settist hjólafólkið á fáka sína og þandi mótora í 10 sekúndur. Þá var öllum boðið til kaffisamsætis í félagsheimili bifhjólaklúbbsins á Ásbrú.
Víkurfréttir sendu minningarstundina út í beinni útsendingu á fésbókarsíðu Víkurfrétta. Þar fylgdust yfir 600 manns með útsendingunni og um 7000 manns voru búnir að horfa á upptöku af útsendingunni á fyrsta klukkutímanum. Upptökuna má sjá hér að neðan en þar er meðal annars að finna ávarp Óskars, sem svo sannarlega á erindi til fólks.
UPPTAKA AF BEINNI ÚTSENDINGU SJÓNVARPS VÍKURFRÉTTA