Fjölmenn bænastund í Safnaðarheimilinu í Sandgerði
Fjölmennt var við bænastund í Safnaðarheimilinu í Sandgerði síðdegis til að minnast þeirra tveggja sem létust í bílslysi í gærkvöldi rétt fyrir utan Sandgerði.
Bílslysið varð rétt eftir klukkan sjö í gærkvöldi á Garðskagavegi þegar sendibíll og fólksbíll lentu í hörðum árekstri. Ökumaður sendibílsins sem var þrjátíu og fjögurra ára, er talinn hafa látist samstundis. Tuttugu og tveggja ára karlmaður sem var farþegi í sendibílnum, lést skömmu eftir að sjúkraflutningamenn komu með hann á slysadeild Landsspítalans.
Ökumaður fólksbílsins, sautján ára gamall, er kominn úr öndunarvél en liggur enn talsvert slasaður á Gjörgæsludeild Landsspítalans.
Sandgerðisdögum sem halda átti hátíðlega um þar næstu helgi hefur verið aflýst vegna atburðarins.
Mynd: Fólk kemur til bænastundarinnar í Sandgerði í kvöld. VF-mynd: Hilmar Bragi