Fjölgun bílastæða við FLE. Gjaldtaka hafin á skammtímastæðum
Bílastæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur verið fjölgað verulega, bæði skammtímastæðum fyrir þá sem fylgja farþegum í flug eða sækja komufarþega og langtímastæðum fyrir þá sem hafa bílana sína á flugvellinum meðan ferðalagið varir. Þetta er liður í stækkun og breytingum í flugstöðinni sem eiga rætur að rekja til þess að farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgar ár frá ári með tilheyrandi aukningu bílaumferðar og spurnar eftir bílastæðum við flugstöðina.
Þá hefur verið komið upp gjaldtöku fyrir skammtímastæði frá og með 10.maí. Er takmarkið með gjaldskyldunni að stuðla að því að skammtímastæðin skili sínu hlutverki þannig að fólk sem staldri stutt fái stæði.
Í tilkynningu frá FLE kemur fram að gjald á skammtímastæðum verði hóflegt, en greiðslukerfið er tæknilega afar fullkomið, aðgengilegt og einfalt í notkun. Jafnframt verður gjaldskrá fyrir langtímastæði við flugstöðina breytt þannig að gjaldið fari stiglækkandi fyrir bíla sem standa þar lengur en eina viku.
Gjaldskráin fyrir bílastæði við flugstöðina frá og með 10. maí 2005 verður sem hér segir:
Skammtímastæði:
- 100 krónur á klukkustund, 2.400 krónur fyrir fyrsta sólarhringinn.
- Gjaldið lækkar um helming eftir fyrsta sólarhringinn og verður þá 1.200 krónur á sólarhring.
Langtímastæði:
- 500 krónur á sólarhring fyrstu vikuna en lækkar síðan í 350 krónur á sólarhring og lækkar enn frekar eftir aðra vikuna.
Notendur skammtíma- og langtímastæða geta opnað hlið að stæðunum með kreditkorti og greitt fyrir þjónustuna á staðnum á bakaleiðinni með korti í greiðsluvél. Dvalartími er mældur sjálfvirkt og tilheyrandi gjald tekið af kortinu. Slíkt fyrirkomulag reynist afar vel á bílastæðum og í bílastæðahúsum víða erlendis.
Þeir sem ekki greiða með korti taka miða úr vél við komuna á stæði og greiða í gjaldvél í norðurenda flugstöðvarbyggingarinnar eða í afgreiðslu Securitas í komusal. Ef spurningar vakna eða vandamál skapast í gjaldhliðum er auðvelt að fá aðstoð í gegnum símkerfi sem tengt er afgreiðslu Securitas í flugstöðinni.
Vakt í skýli við langtímastæðið verður lögð af en Securitas hefur í staðinn sett upp nýtt og fullkomið öryggiskerfi með myndavélum við öll bílastæði. Fyrirtækið vaktar þau úr aðsetri sínu í flugstöðinni allan sólarhringinn.
Loftmynd/Oddgeir Karlsson