Fjölgreinabrautin vinsælust í FS
Gestir á opnu húsi fengu frábæra þjónustu.
„Það gekk í rauninni mjög vel þótt við hefðum gjarnan viljað fá fleiri. Þau sem komu fengu frábæra þjónustu. Það voru allir ótrúlega jákvæðir og vel undirbúnir,“ segir Guðlaug M. Pálsdóttir, aðstoðarskólameistari FS, um opið hús skólans sem fram fór í gær. Þar fór m.a. fram kynning á námsframboði næsta haust, inntökuskilyrðum, húsnæði, félagslífi og fleiru. Nemendur 10. bekkja sem útskrifast í vor voru hvattir til að koma og bjóða foreldrum sínum með.
„Við kynntum þrjár nýjar stúdentsbrautir: félagsvísindabraut, raunvísindabraut og fjölgreinabraut. Það fór avuðvitað smá púður í það. Brautirnar þrjár eru byggðar á sama kjarna en á fjölgreinabrautinni er hægt að raða náminu í viðbót við kjarnann eftir hentugleika hvers og eins; algjörlega eftir því hvert stefnan er tekin. Fólk er greinilega hrifið af henni og því verður fróðlegt að fylgjast með hvernig það kemur allt saman út,“ segir Guðlaug.
Einnig sé skólinn með margt fagfólki í verknámi og listnámi sem hafi kynnt þær leiðir í gær. „Það er alltaf spennandi að skoða það sem er sýnilegt, s.s. tæki, tölvur, tól og myndir.“
Fyrir þau sem eru að ljúka 10. bekk rennur umsóknarfrestur um nám út í júní. Forinnritun lýkur í fyrri hluta apríl en opnar svo aftur. „Þá þurfa nemendur að fara að ákveða sig. Auðvitað þurfa þeir einnig að fá sína lokeinkunn úr grunnskóla til þess að sjá út hvaða braut þau hafa rétt til að fara inn á,“ segir Guðlaug.