Fjölgar hægar milli ára
Íbúum Reykjanesbæjar hefur fjölgað um 249 manns á síðustu tólf mánuðum. Bæjarbúar eru í dag 19.672 og gerir þetta 1,3% fjölgun frá 1. desember 2019. Þegar tölur um fjölgun milli áranna 2018 til 2019 eru skoðaðar, þá fjölgaði bæjarbúum um 541 milli þeirra ára samanborið við 249 síðustu tólf mánuði. Íbúar Reykanesbæjar voru 18.882 þann 1. desember 2018, 19.423 þann 1. desember 2019 og eru í dag 19.672.
Suðurnesjabær er næstfjölmennasta sveitarfélagið á Suðurnesjum með 3.646 bæjarbúa þann 1. desember sl. Íbúum þar hefur fjölgað um 60 á síðustu tólf mánuðum eða 1,7%.
Í Grindavík búa 3.544 einstaklingar og þeim hefur fjölgað um 36 á síðustu tólf mánuðum eða um rétt eitt prósent.
Í Sveitarfélaginu Vogum voru íbúar 1.325 þann 1. desember sl. Fjölgun milli ára er 1,3% eða upp á 17 íbúa.
Reykjanesbær er áfram fjórða stærsta sveitarfélag landsins á eftir Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Akureyri er fimmta stærsta sveitarfélagið og hafði sætaskipti við Reykjanesbæ fyrir fáeinum misserum.