Fjölgað um 8,0% á einu ári
Hlutfallslega mest hefur fjölgun íbúa verið á Suðurnesjum á síðustu tólf mánuðum, eða um 6,6% sem er fjölgun um 1.927 íbúa. Fjölgunin á Suðurnesjum er mest í Reykjanesbæ og var heil átta prósent frá 1. desember 2021 til 1. desember 2022.
Íbúar Reykjanesbæjar voru samtals 22.009 þann 1. desember. Fyrir ári síðan voru þeir 20.381. Suðurnesjabær er næst fjölmennasta sveitarfélagið á Suðurnesjum með 3.912 íbúa og fjölgun upp á 4,5% á milli ára eða 168 íbúa. Grindvíkingum fjölgaði um 76 á milli ára. Þeir eru í dag 3.665 talsins en fjölgunin var 2,1% á milli ára. Í Sveitarfélaginu Vogum var fjölgun upp á 4,1%. Þar eru íbúar 1.393 þann 1. desember sl. og fjölgaði um 55 á síðustu tólf mánuðum.
Samtals er íbúafjöldi á Suðurnesjum 30.979 manns. Samtals fjölgar íbúum á landinu öllu um 11.319 frá 1. desember 2021 sem er um 3,4%. Öll sveitarfélög á Suðurnesjum, utan Grindavíkur, eru því vel yfir landsmeðaltalinu.