Fjöldi kvartana vegna lyktar frá síldarvinnslu
Umhverfisstofnun hefur fengið umtalsvert magn kvartana um lykt frá fiskilmjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Helguvík vegna vinnslu þann 27. júlí s.l. Umhverfisstofnun hafði samband við fyrirtækið til að fá upplýsingar um gæði hráefnis sem unnið var á þessum tíma og óskað eftir viðbrögðum frá rekstraraðila.
Samkvæmt þeim upplýsingum lauk vinnslu hjá Síldarvinnslunni í nótt (28. júlí) og samkvæmt upplýsingum frá rekstraraðila er ekki von á frekari vinnslu næstu daga. Þá kom fram að mælingar sem gerðar voru á hráefninu við vinnslu þess sýndu að TVN gildi sem sýna fram á gæði og ferskleika hráefnis voru innan þeirra marka sem tilgreind eru í starfsleyfi en mörkin eru 100 mgN/100 g sýni.
Samkvæmt upplýsingum frá rekstraraðila hófst löndun á hráefni þann 26. júlí kl. 20.00 og fór verksmiðjan í gang fljótlega upp úr því. Um var að ræða 601 tonn af makríl og 127 tonn af makrílfrákasti. Hitastig makrílfarmsins var 2°C og TVN sýni úr honum gaf 19,6 mgN/100g hráefni. Hitastig makrílfrákastsins var 4°C og TVN mæling sýnis úr því var 72,8 mgN/100g sýnis. Einnig var landað til vinnslu um 150 tonn af makríl þar sem hitastigið var -1°C og fór hluti þess farms til vinnslu hjá Saltveri í Reykjanesbæ.
TVN gildi við vinnslu hráefnis kl. 7.30 að morgni 27. júli gáfu TVN gildi upp á 85,4 mgN/100 g. Kl. 13.00 var tekið sýni og var gildið 37,7 mgN/100g og kl. 16.00 var gildið 44,8 mgN/100g. Þessi gildi eru öll innan marka þess sem kemur fram í grein 2.2. í starfsleyfi fyrirtækisins. Umhverfisstofnun fylgir eftir öllum ábendingum sem berast og mun fara sérstaklega yfir lyktarmál og kvartanir á fundi með fyrirtækinu á næstu dögum. Þá mun stofnunin fylgja þeim eftir í næsta reglubundna eftirliti. Allar frekari ábendingar óskast sendar á Umhverfisstofnun á póstfangið [email protected]