Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjöldi gesta hefur kynnt sér það nýjasta í atvinnulífi á Reykjanesi
Sunnudagur 6. september 2009 kl. 12:27

Fjöldi gesta hefur kynnt sér það nýjasta í atvinnulífi á Reykjanesi

Sýningin Reykjanes 2009 hefur staðið yfir í Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ frá því á föstudag, en í dag er síðasti sýningardagur. Fjöldi gesta hefur heimsótt sýninguna, þar sem yfir 50 sýnendur kynna það nýjasta í uppbyggingu atvinnulífs á Reykjanesi, þjónustu og fjölbreytt handverk. Sýningin verður opin í dag frá klukkan 12 til 18 og er aðgangur ókeypis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gestir hafa gert góðan róm að frammistöðu sýnenda sem hafa lagt mikið í sýningarsvæði sín. Börnin skemmtu sér meðal annars við andlitsmálun, blöðrur og stórt fiskabúr sem sett hefur verið upp á svæðinu og fullorðna fólkið kynnti sér alla þá uppbyggingu sem nú á sér stað í atvinnulífi á Reykjanesi, skoðaði spennandi handverk og fræddist um sveitarfélög sem kynna þar þjónustu sína.

Yfir 50 sýnendur af öllum stærðum og gerðum kynna starfsemi sína, vörur og þjónustu á Reykjanesi 2009 og þar af eru mörg stærstu fyrirtækin á svæðinu. Má til að mynda nefna samstarfsaðila sýningarinnar; Bláa lónið, Geysi Green Energy, Háskólavelli, HS Orku, KADECO – Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Keili, Norðurál og Sparisjóðinn í Keflavík, sem öll standa um þessar mundir að kröftugri uppbyggingu á Reykjanesi á einn eða annan hátt.

Nánari upplýsingar má finna á vefnum www.reykjanes2009.is.