Fjöldi fyrirtækja á Suðurnesjum innleiðir Vakann
- Þörf á aukinni fagmennsku í ferðaþjónustu, segir verkefnastjóri
Keilir á Ásbrú, í samstarfi við Markaðsstofu Reykjaness, býður fyrirtækjum í ferðaþjónustu að innleiða Vakann, gæða- og umhverfiskerfi fyrir íslenska ferðaþjónustu. Sigurbjörg Jónsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri hjá Keili og mun aðstoða fyrirtæki við innleiðingu Vakans. Sigurbjörg er Vakanum vel kunn því að hún sá um innleiðingu hans sumarið 2014 hjá Bílaleigunni Geysi en bílaleigan var fyrsta fyrirtækið á Suðurnesjum sem innleiddi gæðakerfið. Stuttu síðar hlaut Bláa lónið Vakann og nú eru mörg fyrirtæki á Reykjanesi í því ferli að uppfylla kröfur Vakans. „Það er þörf á aukinni fagmennsku með auknum fjölda ferðamanna hér á landi.“ segir Sigurbjörg.
Þau fyrirtæki sem taka þátt njóta liðsinnis Sigurbjargar við að taka út reksturinn á grundvelli ítarlegra gæðaviðmiða, fá staðfestingu á því sem vel er gert og tækifæri til að bæta það sem betur má fara. Vakinn er íslensk vottun en byggð á nýsjálensku gæðakerfi fyrir ferðaþjónustu sem kallast Qualmark. Mikil vinna hefur verið lögð í að staðfæra kerfið og laga að íslenskum aðstæðum. Eftir að fyrirtæki hafa fengið vottun Vakans er gerð úttekt á starfseminni einu sinni á ári eftir það.
Sigurbjörg segir mikla auglýsingu fylgja því fyrir fyrirtæki að innleiða Vakann. „Á vefnum Visit Iceland er listi yfir þau fyrirtæki sem hafa innleitt Vakann og líka í tímariti fyrir farþega í Icelandair vélum og í flugstöðinni. Ferðamenn horfa til þess að þau fyrirtæki sem þeir skipta við séu með gæðavottun.“ Að sögn Sigurbjargar er stefnt er að því að Reykjanesið verði leiðandi sviði Vakans á landsvísu. Fyrirtæki sem vilja innleiða Vakann geta haft samband við Sigurbjörgu með tölvupósti á netfangið [email protected].