Fjöldi flugvéla í fyrsta sinn yfir 20 þúsund í einum mánuði
Fjöldi flugvéla í gegnum íslenska úthafsflugstjórnarsvæðið á einum mánuði fór í fyrsta skipti yfir 20.000 vélar nú í júlí, en samtals flugu 20.265 vélar um svæðið. Áætla má að um fimm milljónir farþega hafi ferðast með þessum flugvélum, segir í frétt á isavia.is.
Tuttuguþúsundasta flugvélin var Air Canada, flugnúmer 845, sem flýgur milli Frankfurt og Calgary. Flugi sem fer um íslenska flugstjórnarsvæðið er stjórnað úr flugstjórnarmiðstöð Isavia í Reykjavík og sendu flugumferðarstjórar þaðan kveðju til flugfélagsins þar sem tilkynnt var um þessa tölfræði. Kveðjunni var komið til áhafnar vélarinnar og var henni vel tekið. Umferð hefur aukist í Flugstjórn alla mánuði sem liðnir eru af árinu, bæði hvað varðar fjölda flugvéla og floginna kílómetra.
Ríflega þriðjungur umferðar um íslenska svæðið er til og frá Íslandi. Önnur umferð er yfirflug milli Evrópu og Ameríku annars vegar og Ameríku og Asíu hins vegar. Flugið milli Ameríku og Asíu hefur aukist síðustu árin en oft er stysta leiðin á milli álfanna yfir norðurpólinn og þannig í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið.