Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjöldi ferðamanna á Suðurnesjum yfir jól og áramót
Föstudagur 30. desember 2016 kl. 09:00

Fjöldi ferðamanna á Suðurnesjum yfir jól og áramót

- Ferðamenn þegar farnir að bóka gistingu um áramótin á næsta ári

Fjöldi erlendra ferðamanna ver jóla- og/eða áramótafrídögum sínum á Suðurnesjum. Hjá hótelinu Northern Light Inn í Grindavík er full bókað um áramótin og þegar orðið mikið bókað um áramótin á næsta ári. Undanfarin ár hefur verið lokað hjá hótelinu um jólin en opnað aftur 27. desember og þá hefur jafnan verið fullbókað. Að sögn Friðriks Einarssonar, hótelstjóra, koma gestirnir víðs vegar að úr heiminum, til dæmis frá Japan, Bandaríkjunum og Evrópu. Meðal gesta eru hópar en einnig fjölskyldur og einstaklingar. Boðið er upp á hátíðarhlaðborð á gamlárskvöld þar sem gestir hótelsins snæða saman hefðbundinn íslenskan hátíðarmat. Einnig er nokkuð um að bæði íslenskir og erlendir gestir komi í hátíðarmatinn. „Við höfum reynt að taka við á meðan pláss leyfir,“ segir Friðrik.

Þeim gestum sem það kjósa er ekið á áramótabrennu í Grindavík. Flugeldum er einnig skotið upp við hótelið sem er rétt utan við Grindavík. „Við kaupum aðeins af björgunarsveitinni og skjótum upp. Ef veður leyfir keyrum við upp að Þorbirni þaðan sem gott útsýni er yfir flugeldana í Grindavík,“ segir hann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hótel Jazz var opnað í ágúst síðastliðnum við Austurgötu í Reykjanesbæ í húsinu sem áður hýsti Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Þar verður opið bæði yfir jól og áramót. Að sögn Kristjönu Kristjánsdóttur, hótelstjóra, hefur nýting herbergja verið vonum framar og herbergin yfir jól og áramót bókuð í október. Nú er verið að opna gistiheimili í húsi við hliðina og er fullbókað þar líka. Kristjana á von á að gestir hótelsins snæði hátíðarmatinn hjá Kaffi Duus en þar er opið yfir jól og áramót.
Gestir Hótel Jazz koma flestir frá Bandaríkjunum og Evrópu. Margir gestanna eru af asískum uppruna en búsettir í Evrópu.

Á Hótel Keflavík er sömu sögu að segja og uppbókað um jól og áramót á hóteli, gistiheimili og í fimm stjörnu herbergjum. Að sögn Steinþórs Jónssonar, hótelstjóra, hefur verið sérstaklega ánægjulegt hve mikil eftirspurn hefur verið eftir herbergjum á Diamond Suite sem eru fimm stjörnu herbergi á efstu hæð hótelsins. Gestirnir eru bæði fjölskyldur og pör og koma víðs vegar að úr heiminum. „Á Diamond Suite fáum við gesti frá löndum eins og Arabaríkjum og Ísrael. Fólk þaðan hefur ekki verið algengir gestir á hótelinu og gistiheimilinu,“ segir hann. Á veitingastað hótelsins KEF Restaurant var boðið upp á jólamat á aðfangadag og um áramótin verður þeim gestum sem það panta fyrirfram boðið upp á hátíðarkvöldverð.

Desembermánuður hefur verið annasamasti mánuður ársins hjá Base hotel á Ásbrú ef ágúst er undanskilinn, en þá tók hótelið til starfa. „Það hefur verið brjálað að gera hjá okkur yfir hátíðarnar og troðið af gestum,“ segir Richard Eckard, hótelstjóri, í samtali við Víkurfréttir. Fullbókað var á jóladag og mikið af ferðamönnum sem vildu njóta jólanna á Íslandi. Richard segir alls kyns ferðamenn heimsækja landið á þessum árstíma en þó sé líklega mest um fólk frá Bandaríkjum og Kanada. „Fólk er að sækja mikið í norðurljósin og svo er það Gullni hringurinn og Reykjaneshringurinn sem er vinsælast hjá fólki.“ Richard var á báðum áttum með að hafa opið yfir hátíðarnar en sér svo sannarlega ekki eftir því.

Bílaleigurnar finna líka fyrir auknum áhuga ferðamanna um hátíðirnar. Jól og áramót væru nýr toppur í starfseminni.

Ferðamenn bíða af sér veðrið í anddyri Hótels Keflavíkur.