Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjöldi bílastæða tvöfaldast við Hafnargötuna
Þriðjudagur 25. mars 2003 kl. 09:19

Fjöldi bílastæða tvöfaldast við Hafnargötuna

Í gær var haldinn kynningarfundur vegna framkvæmda á Hafnargötunni sem hefjast senn. Fundurinn var haldinn á Ránni og var töluverður fjöldi fólks á fundinum. Að sögn Árna Sigfússonar bæjarstjóra var fundurinn haldinn með það að markmiði að kynna framkvæmdirnar og fá hugmyndir og athugasemdir frá íbúum. Viðar Már Aðalsteinsson framkvæmdastjóri umhverfis- og skipulagssviðs kynnti framkvæmdirnar en gert er ráð fyrir að kostnaður við þær verði um 350 milljónir króna og að framkvæmdatími verði 17-18 mánuðir.Gert er ráð fyrir fjórum hringtorgum á Hafnargötunni og að umhverfi götunnar verði fegrað, auk hliðargatna sem verða teknar í gegn. Framkvæmdunum er skipt niður í 6 áfanga og er gert ráð fyrir að fyrsta áfanga, þ.e. svæðið á milli Aðalgötu og Tjarnargötu verði lokið þann 16. júní nk. Samkvæmt skipulagi Reykjanesbæjar er gert ráð fyrir að þungaumferð verði um Ægisgötuna þegar búið verður að fylla það svæði upp og léttir þar með á umferð um Hafnargötuna.
Árni Sigfússon sagði að Reykjanesbær óskaði eftir nánu samstarfi við íbúa og eigendur húsa við Hafnargötu um framkvæmdirnar og m.a. verður boðið upp á ráðgjöf arkitektastofu varðandi litaval húsa við götuna. Gert er ráð fyrir að bílastæðafjöldi muni tvöfaldast við Hafnargötuna í kjölfar framkvæmdanna.

Teikning af torgi sem verður á mótum Hafnargötu og Tjarnargötu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024