Fjölbreyttir Sandgerðisdagar
- Rigning í kortunum um helgina
Fjölbreytt dagskrá er í dag á Sandgerðisdögum. Listatorgið verður opið frá kl 13 til 18 og 10% afsláttur verður af öllum vörum í Gallerýinu frá föstudegi til sunnudags. Í sal Listatorgs verður samsýning Nínu, Hafdísar og Þórdísar og opnar hún í dag kl 13.
Tónlistarskóli Sandgerðis býður bæjarbúum í opið hús og þar gefst þeim tækifæri til þess að kynna sér starfsemi skólans og skoða húsakynni hans. Kaffi og kleinur verða í boði.
Stórleikur verður á K&G vellinum þegar Norðurbær og Suðurbær mætast, frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Leikurinn hefst kl 16. Saltfiskveisla verður síðan í boði fyrir keppendur að keppninni lokinni í Reynisheimilinu.
Sagna- og söngvakvöld í Efra-Sandgerði verður frá 19 til 21. Umsjón kvöldsins verður í höndum Lionsklúbbs Sandgerðis.
Í Skýjaborg verða Ungmennatónleikar þar sem Emmsjé Gauti og Keli koma fram ásamt DJ-BB. Tónleikarnir verða fyrir 13 ára og eldri og standa yfir á milli 21 og 24.
Í kvöld fer fram stórdansleikur í Samkomuhúsinu þar sem Stuðlagabandið leikur fyrir dansi. Dansleikurinn hefst kl 23 og stendur til 03. Aldurstakmark er 25 ára.
Mamma Mía verður með tilboð á barnum frá miðnætti.
Veðurspá helgarinnar er vætusöm eftir góðviðrisdaga undanfarnar vikur og það mun bæta í vindinn þegar líður á daginn í dag. Regnkápan mun því koma sér vel um helgina.