Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjögurþúsundasti nemandinn útskrifaður frá Keili
Útskriftarhópur Flugakademíu Íslands. Ljósmyndir: Oddgeir Karlsson
Föstudagur 18. júní 2021 kl. 09:05

Fjögurþúsundasti nemandinn útskrifaður frá Keili

Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs útskrifaði 171 nemanda við hátíðlega athöfn í Hljómahöll í Reykjanesbæ föstudaginn 11. júní. Við athöfnina voru útskrifaðir 87 nemendur af Háskólabrú, 26 ÍAK einkaþjálfarar, 26 ÍAK styrktarþjálfarar og 32 atvinnuflugmenn. 

Útskriftin markaði þau tímamót að fjögurþúsundasti nemandinn útskrifaðist frá Keili og hafa nú samtals 4.166 einstaklingar útskrifast úr námi við skóla miðstöðvarinnar. Heiðurinn féll Daða Þór Ásgrímssyni, nemanda Háskólabrúar, í skaut og fékk hann blómvönd frá Keili við þetta tækifæri. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Brautskráning úr stærstu frumgreinadeild landsins

Háskólabrú brautskráði samtals 87 nemendur, 64 nemendur af Háskólabrú í fjarnámi, 23 af Háskólabrú með vinnu og tíu af Háskólabrú í staðnámi. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp og afhenti viðurkenningarskjöl ásamt Ingibjörgu Elvu Vilbergsdóttur, verkefnastjóra Háskólabrúar. Dúx Háskólabrúar var Eyjólfur Örn Auðunsson með 9,68 í meðaleinkunn og fékk hann gjafabréf frá Arion banka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þá hlaut Hildur María Jónsdóttir Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir góðan námsárangur á Háskólabrú og eftirtektarverða þrautseigju. Sigríður Ella Kristjánsdóttir hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema Háskólabrúar.

Eyjólfur Örn Auðunsson, Dúx Háskólabrúar.

Háskólabrú hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007 og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu. Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans.

Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis.

Samtals hafa yfir tvö þúsund einstaklingar lokið námi á Háskólabrú og hafa langflestir þeirra haldið í áframhaldandi nám bæði hérlendis og erlendis. Mikill fjöldi umsókna hefur borist á nám á haustönn 2021 og er viðbúið að á fjórða hundrað nemenda leggi stund á frumgreinanám við Keili á komandi skólaári.

Fyrsta brautskráning Flugakademíu Íslands

Flugakademía Íslands brautskráði 32 atvinnuflugmenn en þetta er fyrsta útskrift skólans undir þessu heiti eftir að Flugakademía Keilis og Flugskóli Íslands sameinuðust á síðasta ári.

Kári Kárason, forstöðumaður Flugakademíu Íslands, flutti ávarp og veitti viðurkenningar ásamt Davíð Brá Unnarssyni, skólastjóra Flugakademíunnar. Jonas Romby Rernböck hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur í atvinnuflugnámi með 9,56 í meðaleinkunn. Hlaut hann gjafabréf og módel að verðlaunum frá Icelandair ásamt gjafabréfi frá Play. Sigurður Vignir Guðmundsson hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema Flugakademíu en hann hlaut einnig verðlaun fyrir eftirtektarverða þrautseigju og fékk gjafabréf frá True Flight Training Iceland að gjöf.

Flugakademía Íslands er eini skólinn á Íslandi sem býður upp á atvinnuflugnám og hafa hátt í þrettánhundrað nemendur lokið flugnámi frá einingum skólans.

700 nemendur hafa lokið ÍAK einkaþjálfaranámi

Heilsuakademían útskrifaði alls 52 nemendur, 26 ÍAK einkaþjálfara og 26 ÍAK styrktarþjálfara. Arnar Hafsteinsson, fráfarandi forstöðumaður Heilsuakademíunnar, flutti ávarp og afhenti viðurkenningar ásamt Haddý Önnu Hafsteinsdóttur, verkefnastjóra. Bryndís Ósk Valdimarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í ÍAK einkaþjálfun með meðaleinkunn upp á 9,71 en Hildur Ketilsdóttir hlaut verðlaunin fyrir bestan námsárangur í ÍAK styrktarþjálfun með meðaleinkunnina 9,76 og hlutu þær báðar TRX bönd frá Hreysti að gjöf.

Alls hafa 694 einstaklingar lokið ÍAK einkaþjálfaranámi sem er eina einkaþjálfaranám á Íslandi sem er viðurkennt af menntamálaráðuneytinu sem starfsnám á þriðja hæfniþrepi og gæðavottað af Europe Active á fjórða þrepi samkvæmt reglum Evrópusambandsins (Level 4 Personal Trainer stofnunarinnar). Vottunin er gæðastimpill á því námi sem skólinn hefur boðið upp á undanfarin ár.

Húsband Keilis, þau Fríða Dís og Smári.