Fjögur fölsuð skírteini fundust á Albönskum manni
Albanskur karlmaður er nú í haldi lögreglunnar í Keflavík grunaður um smygl á fólki. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem maður er úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um brot af þessu tagi. Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness verður hann í gæsluvarðhaldi þangað til á þriðjudag. Maðurinn, sem er um þrítugt, kom hingað til lands frá Amsterdam síðastliðinn miðvikudag. Halldór Guðjónsson, aðstoðaryfirlögrelguþjónn á Keflavíkurflugvelli staðfesti að tvö fölsuð vegabréf og tvö fölsuð ökuskírteini hefðu fundist við leit á manninum. Aðspurður vildi hann ekki gefa upp frá hvaða landi hin fölsuðu skírteinin væru. Haft hefur verið eftir Jóhanni R. Benediktssyni, sýslumanni á Keflavíkurflugvelli í Ríkisútvarpinu að maðurinn hafi áður verið handtekinn erlendis grunaður um að hafa átt þátt í að falsa skírteini. Halldór vildi ekki segja nákvæmlega hvað hefði leitt til handtöku mannsins hér á landi. Verið væri að rannsaka hvort málið tengdist einhverjum fleirum bæði hérlendis sem og erlendis. Enginn hefur verið handtekinn vegna þessa. Vísir.is greinir frá.