Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 31. maí 2001 kl. 09:05

Fjarnám í veiðafærafræðum í FS

Fjölbrautaskóli Suðurnesja hlaut á dögunum einnar milljónar króna styrk frá Starfsmenntaráði vegna verkefnsins „Veisímar“ (veiðarfæragerð-símenntun-margmiðlun). Markmiðið er að útbúa efni til fjarkennslu til að auðvelda þeim sem ekki geta sótt staðbundið nám vegna búsetu og annarra aðstæðna, kost á að stunda nám í veiðarfærafræðum heima í héraði eða á þeim stað sem nemanda hentar best.
Ennfremur er markmiðið að kynna alla helstu flokka veiðarfæra, uppsetningu þeirra og tæknileg atriði sem þarf að kunna til að geta hannað veiðarfæri með hámarks gæðum. Notuð verður líkanagerð til að þróa veiðarfæri með því að prófa þau í tilraunatanki. Notuð er tölvuvinnsla og teikningar í tölvu til að hanna veiðarfæri. Umsjónarmaður verkefnisins er Lárus Þór Pálmason.
„Alls voru 45 milljónir króna til úthlutunar hjá Starfsmenntaráði á þessu ári. Ákveðið var í byrjun árs að styrkja þrenns konar verkefni, þ.e. verkefni sen tengjast notkun internetsins í starfsmenntun, verkefni sem stuðla að auknum gæðum starfsmenntunar og styrkir til
starfsmenntunar erlends vinnuafls“, segir Ólafur Finnbogason starfsmaður ráðsins en það hefur aðsetur hjá Vinnumálastofnun.
Megin tilgangur Starfsmenntaráðs er að stuðla að nýsköpun og framþróun starfsmenntunar á Íslandi svo og rannsókna og kynningarstarfs á þessu sviði. Í ráðinu eiga sæti sjö fulltrúar, tveir eru fulltrúar Alþýðusambands Íslands, einn fulltrúi BSRB, þrír eru fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, og einn fulltrúi félagsmálaráðherra. Menntamálaráðuneytið hefur áheyrnarfulltrúa í ráðinu.
Starfsmenntaráð heyrir undir ráðuneyti félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar og formaður ráðsins er Davíð Stefánsson stjórnsýslufræðingur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024