Fjármunir ríkisins fari þangað sem þörfin er mest
Atvinnuleysi í Reykjanesbæ í júlí mældist 18,5%. Alls voru 2.336 án vinnu og 328 á hlutabótaleið. Helmingur þeirra sem nú eru atvinnulausir höfðu bein störf í ferðaþjónustu eða flugsamgöngum.
„Í ljósi fregna síðustu vikna má gera ráð fyrir að þessi fjöldi muni aukast enn frekar. Bæði eru uppsagnarfrestir margra þeirra sem sagt hafði verið upp í maí að renna út núna í ágúst, auk þess sem endurráðningar vegna vonar um aukin umsvif í flugi og ferðaþjónustu munu nú ganga til baka,“ segir í fundargerð menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar.
Menningar- og atvinnuráð skorar á allt atvinnulíf jafnt sem stjórnvöld að sækja fram og halda efnahagslegum áhrifum af Covid-19 í lágmarki. Menningar- og atvinnuráð ítrekar þá skoðun sína að mikilvægt er að fjármunir ríkisins fari þangað sem þörfin er mest, þ.e. á Suðurnesin.