Fjármunir af sölu eigna á Ásbrú verði á svæðinu
Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í gær lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fram bókun þess efnis að gerð verði krafa til ríkisins um að stórum hluta söluverðmætis eigna á Ásbrú verði varið til uppbyggingar á nærþjónustu á svæðinu. Fjármála- og efnahgasráðuneytið hefur óskað eftir afstöðu Reykjanesbæjar til sölu á eignum á Ásbrúarsvæðinu.
Eftirfarandi er bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar í gær, þriðjudaginn 5. apríl:
Við brotthvarf bandaríska varnarliðsins haustið 2006 stofnaði ríkið Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. og fól því að annast umsýslu fasteigna ríkisins á svæðinu og önnur verkefni sem tengjast framtíðarþróun þess.
Við höfum séð svæðið þróast mikið í kringum Keili, frumkvöðlasetrið og gagnaver svo eitthvað sé nefnt og nú er svo komið að mikið af íbúðahúsnæðinu eru selt. Mikill áhugi er meðal fjárfesta og fyrirtækja í flugtengdum rekstri að nýta enn meira af því húsnæði sem eftir er. Ásbrú er óðum að festa sig í sessi sem eitt af stærri hverfum Reykjanesbæjar og er löngu tímabært að við lítum til þess hvernig við sem sveitarfélag munum þjónusta og þróa þetta hverfi til framtíðar.
Í bréfi Fjármála- og efnahagsráðuneytisins er farið fram á afstöðu Reykjanesbæjar til sölu á eigna á Ásbrúarsvæðinu. Við Sjálfstæðismenn gerum þá kröfu til ríkisins að stórum hluta söluverðmætis þessara eigna verið varið til að byggja upp nærþjónustuna á svæðinu. Reykjanesbær hefur byggt upp grunnskóla og tvo leikskóla á þessu svæði með tilheyrandi kostnaði og taka verður tillit til þessa þegar fjármunum sem myndast í Þróunarfélaginu verður úthlutað.