Fjármál hafnarinnar færð til Reykjanesbæjar
Fjármálaleg umsýsla Reykjaneshafnar verður flutt yfir til fjármálastjóra Reykjanesbæjar, samkvæmt tillögu sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi í gær. Formaður atvinnu- og hafnarráðs, sem bar upp tillöguna, segir af og frá að hún feli í sér vantraust á núverandi hafnarstjóra.
Í tillögunni segir að á þeim tímum þar sem veruleg fjármálaleg umsýsla eigi sér stað hjá Reykjaneshöfn og um sé að ræða stærstu fjárfestingar á ábyrgð bæjarins sé „eðlilegt og sjálfsagt að fjármálaskrifstofa Reykjanesbæjar veiti verkefninu meiri stuðning og utanumhald,“ eins og það er orðað í tillögunni.
Höfnin var nýlega beitt févíti af Kauphöllinni upp á eina og hálfa milljón króna þar sem láðst hafði að tilkynna með réttum hætti gjaldfallin skuldabréf sem þar eru skráð. Í því ljósi kann sú spurning að vakna upp hvort ofangreind tillaga feli í sér vantraust á núverandi hafnarstjóra.
Aðspurður segir Einar Þ. Magnússon, formaður atvinnu- og hafnarráðs, það af og frá.
Að sögn Einars er ekki verið að færa allt bókhaldið heldur eingöngu hluta þess yfir til fjármálastjóra Reykjanesbæjar sem fái þá fái meiri og betri yfirsýn yfir bókhaldið og fjármálin enda sé höfnin að fullu í eigu bæjarins. Með þessari ráðstöfnun verði komið á meiri tengingu og samráði á milli þeirra aðila sem stýra fjármálum bæjarins og hafnarinnar. Einar segir höfnina skulda bæjarsjóði talsverðar fjárhæðir og með þessari ráðstöfnum verði haldið betur utan um þann þátt.
Umrædd tillaga hljóðar svo orðrétt:
„Í samræmi við ákvörðun atvinnu- og hafnaráðs fyrr í dag, samþykkir bæjarstjórn Reykjanesbæjar að fjármálaleg umsýsla hafnarinnar verði flutt til Reykjanesbæjar í samráði við fjármálastjóra bæjarins. Á þeim tímum þar sem veruleg fjármálaleg umsýsla á sér stað hjá Reykjaneshöfn, og um er að ræða stærstu fjárfestingar á ábyrgð bæjarins er eðlilegt og sjálfsagt að fjármálaskrifstofa Reykjanesbæjar veiti verkefninu meiri stuðning og utanumhald.“
VFmynd/Loðnulöndun í Helguvíkurhöfn.