Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjármagnskostnaður lækkar  um 200–300 milljónir á ári
Reykjaesbær hefur innheimt allar eignir sem voru undir eignarhaldsfélaginu Fasteign. VF-mynd/hilmarbragi.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 15. október 2020 kl. 06:55

Fjármagnskostnaður lækkar um 200–300 milljónir á ári

Endurfjármögnun síðasti hluti Sóknarinnar hjá Reykjanesbæ

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir að með lántöku bæjarins upp á 8,4 milljarða króna sem fari til greiðslu á skuld Reykjanesbæjar vegna kaupa á eignum bæjarins, sem voru undir eignarhaldsfélaginu Fasteign ehf. muni lækka fjármagnskostnað um 200 til 300 milljónir króna á ári.

„Árið 2014 hófst fjárhagsleg endurskipulagning fjármála Reyjanesbæjar undir nafninu Sóknin. Síðasti hluti Sóknarinnar er nú í undirbúningi og snýr að því að bæjarsjóður eignist aftur byggingar sem seldar voru út úr eignasafni Reykjanesbæjar upp úr aldamótum. Þær hafa síðan verið leigðar til baka og notaðar undir lögbundna starfsemi sveitarfélagsins, s.s. skóla, íþróttahús og sundlaugar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eins og kunnugt er voru byggingarnar seldar inn í eignarhaldsfélagið Fasteign ehf. árið 2003 en félagið var stofnað í samstarfi við fleiri sveitarfélög og stóra aðila. Yfirfærsla eignanna aftur frá Fasteign til bæjarsjóðs nú verður framkvæmd þannig að Reykjanesbær mun gera upp skuldir Fasteignar við Lífeyrissjóð starfsmanna Ríkisins (LSR) að upphæð 8,4 milljarða króna. Reykjanesbær er í dag 100% eigandi Fasteignar og félagið, og þar af leiðandi skuldir þess, hluti af samstæðu Reykjanesbæjar. Því er ekki um skuldaaukningu að ræða heldur fyrst og fremst formbreytingu. Allir aðrir stofnaðilar félagsins eru löngu farnir út úr félaginu og búnir að kaupa sínar eignir til baka,“ segir Kjartan Már.

Með endurfjármögnuninni gefst tækifæri til að lækka fjármagnskostnað Reykjanesbæjar verulega. Skuldir Fasteignar við LSR bera í dag 4,2% vexti en að sögn Kjartans má gera má ráð fyrir að lán, sem tekin verða í samvinnu við Lánasjóð sveitarfélaga, muni bera mun lægri vexti og að árleg lækkun fjármagnskostnaðar Reykjanesbæjar geti numið 200–300 milljónum á ári.

„Með þessari gjörð lýkur Sókninni sem staðið hefur síðustu sex ár. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Lögboðið skuldaviðmið er nú um 110% og efnahagur sveitarfélagsins miklu betur í stakk búinn að takast á við afleiðingar Covid-19-heimsfaraldursins en fyrir sex árum,“ sagði Kjartan Már.