Fjárhagsleg staða Suðurnesjabæjar eftir samein-ingu er sterk
„Bæjarstjórn lýsir ánægju með fram komna skýrslu frá HLH Ráðgjöf, um úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum Suðurnesjabæjar, ásamt tillögum. Úttektin staðfestir að fjárhagsleg staða sveitarfélagsins eftir sameiningu er sterk, rekstur góður, efnahagur traustur og starfsfólk leggur sig fram af metnaði og með fagmennsku að leiðarljósi við að veita íbúum góða þjónustu,“ segir í afgreiðslu bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar á greiningu rekstrar og starfsemi.
„Niðurstöður úttektarinnar fela í sér tækifæri til að treysta enn frekar rekstur og efnahag sveitarfélagsins með það að markmiði að vera betur í stakk búin til að takast á við margs konar aukna þjónustu og frekari fjárfestingar á næstu árum,“ segir jafnframt.
Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar samþykkti samhljóða að fela bæjarstjóra að vinna aðgerðaáætlun um framgang einstakra tillagna og fylgja ábendingum sem fram koma í skýrslunni. Aðgerðaáætlun með útfærslu á framkvæmd tillagna verði lögð fram í bæjarráði hið fyrsta og reglulega verði stöðumat um framgang verkefna lagt fyrir bæjarráð. Stuðst verði við skýrsluna og aðgerðaáætlunina við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næstu tvö ár.