Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2014: Gjaldskrár ekki hækkaðar
Þriðjudagur 17. desember 2013 kl. 21:12

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2014: Gjaldskrár ekki hækkaðar

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2014 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar nú í kvöld. Reykjanesbær mun ekki hækka gjaldskrár nú um áramót og skipa sér þar með í hóp margra af stærri sveitarfélögum landsins sem tekið hafa sambærilega ákvörðun. Þannig er komið til móts við margar fjölskyldur sem enn hafa ekki náð að vinna sig út úr erfiðu efnahagsástandi.

Sem kunnugt er bjóðast nú þegar gjaldfrjálsar almenningssamgöngur og frí sundiðkun barna í Reykjanesbæ auk þess sem gjaldskrá hádegismatar í grunnskólum er með því lægsta sem býðst á landinu, segir í fréttatilkynningu frá Reykjanesbæ.

Um leið og fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir rekstrarafgangi bæjarsjóðs eins og undanfarin ár ber hún vitni um árangursríka uppbyggingu í forvörnum, fjölskyldumálum, menntamálum, umhverfismálum, menningarmálum og atvinnuþróun. Í erfiðu efnahagsástandi hefur ríkt samstaða bæjarbúa um skólastarfið og málefni fjölskyldna. Það hefur reynst nær ómetanlegt að flugsamgöngur og ferðaþjónusta hafa skapað mörg ný störf, þegar aðrar greinar hafa gefið eftir. Lenging ferðamannatímans gerir það einnig að verkum að færri fara á atvinnuleysisskrá að hausti. Á nýju ári sjást merki um uppvöxt nýrra atvinnutækifæra með stórri fiskeldisverksmiðju á Reykjanesi, þörungagróðurhúsi að Ásbrú og stuðningi ríkisstjórnarinnar við uppbyggingu atvinnuverkefna m.a. í Helguvík. Þá er ánægjulegt að áfram er unnið að uppbyggingu gagnavera að Ásbrú og styrkingu þess frumkvöðlasetur sem þar er með menntastofnunina Keili í forgrunni.

Margvísleg verkefni á næsta ári munu stuðla að styrkingu í þágu barna og menningar í samfélagi okkar. Þar má nefna aukinn stuðning við æskulýðsstarf í gegnum íþróttahreyfinguna og margvíslega starfsemi í þágu barna, hærri hvatagreiðslur, aukinn tæknibúnað til grunnskóla og leikskóla og tölvuþróunar í skólum, aukin framlög til manngildissjóðs, nýja byggingu og búnað fyrir Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, tónlistarsýningu í Hljómahöll og áframhaldandi uppbyggingu garðyrkjudeildar. Um leið er áhersla er lögð á að allar lykiltölur í rekstri verði jákvæðar.

Áætlunin 2014 gerir ráð fyrir að bæjarsjóður skili um 2,5 milljörðum kr. í veltufjármuni og  5,6 milljörðum kr. hjá samstæðu. Veltufé frá rekstri verður um 770 milljónir kr. fyrir bæjarsjóð og um 2,65 milljarðar hjá samstæðu. Heildartekjur bæjarsjóðs eru áætlaðar  tæplega 9,6 milljarðar kr. og heildartekjur samstæðu um 15,8 milljarðar kr.

Reykjanesbæ hefur tekist að standa við greiðslu allra skuldbindinga sinna í erfiðu efnahagsástandi og mun svo verða á árinu 2014.

Enn er unnið að niðurgreiðslu skulda en gert er ráð fyrir að skuldahlutfallið verði rétt um helmingur af skuldahlutfalli ríkisins á næsta ári. Reykjanesbær stefnir á að eignir umfram skuldir á hvern íbúa verði um 524 þúsund á árinu 2014 og haldið verði áfram niðurgreiðslu skulda.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024