Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjárframlög til HSS fylgja sem fyrr ekki fjölgun íbúa og ferðamanna
Föstudagur 16. júní 2023 kl. 13:00

Fjárframlög til HSS fylgja sem fyrr ekki fjölgun íbúa og ferðamanna

Ný skýrsla Deloitte sem unnin var fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) sýnir að fjármögnun á hvern íbúa á Suðurnesjum hefur dregist enn frekar saman frá því að sambærileg skýrsla var unnin fyrir ári síðan en á þeim tíma vakti HSS athygli á að í óefni stefndi. Skýrslan í fyrra sýndi að á árunum 2008–2022 námu skerðingar á hvern íbúa 22% ef horft er til stofnunarinnar í heild, en 45% ef horft væri eingöngu til sjúkrasviðs. Ný skýrsla Deloitte sem tekur til áranna 2008–2023, sýnir að fyrrgreindar skerðingar á hvern íbúa hafa farið úr 22% í 27% fyrir stofnunina í heild og úr 45% í 50% fyrir sjúkrasviðið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Þjónusta bætt með hagræðingu en mæta þarf fjölgun skjólstæðinga

Á HSS hefur undanfarin misseri verið unnið að hagræðingu og eflingu þjónustunnar en stofnunin hefur um árabil verið vanfjármögnuð til þeirra verkefna sem henni er ætlað að sinna. Stofnunin hefur upplýst heilbrigðisráðuneytið um nauðsyn þess að ráðin verði bót á vandanum þar sem hann fer vaxandi og nauðsynlegt er að komast fyrir hann sem fyrst. Sem dæmi má nefna að á 20 ára tímabili hefur íbúum á svæðinu fjölgað um 85% og ferðamönnum um 613% miðað við brottfarir erlendra farþega á Keflavíkurflugvelli en stór hluti þeirra stoppar einnig á einum vinsælasta áfangastað landsins, Bláa lóninu. Vandinn birtist m.a. í því að vaktalínum lækna á slysa- og bráðamóttöku hefur ekki verið fjölgað og eru þær enn aðeins tvær. Því er ekki einungis lífsnauðsynlegt að fjölga vaktalínum lækna á slysa- og bráðamóttöku í samræmi við aukinn fjölda verkefna, heldur á einnig eftir að fullfjármagna þessar tvær sem fyrir eru. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þessi vanfjármögnun vegur afar þungt í rekstri HSS. Í skýrslu heilbrigðisráðuneytisins frá desember sl. um bráðaþjónustu á Íslandi kemur fram að kostnaður af hverri sólarhrings vaktalínu sé gróft áætlaður um 225 milljónir (1). Vegna vanfjármögnunar hefur HSS þurft að taka rekstrarfé af heilsugæslusviði til að tryggja öryggi íbúa og ferðamanna, sem hefur þannig bitnað á þjónustu heilsugæslunnar. 

Bráðamóttaka HSS annar fjórðungi Landspítalans í Fossvogi

Til að setja mikilvægi starfsemi slysa- og bráðadeildar HSS í samhengi má benda á að á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs, leituðu að jafnaði 42 einstaklingar á dag til hennar. Á sama tímabili leituðu 175 (2) einstaklingar að jafnaði á dag á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi. Þannig að slysa- og bráðamóttaka HSS í Reykjanesbæ tekur á móti tæplega fjórðungi þess fjölda sem bráðamóttaka Landspítala í Fossvogi gerir. Því hafa íbúar höfuðborgarsvæðisins verulega hagsmuni af því að slysa- og bráðamóttaka HSS í Reykjanesbæ geti sinnt sínu hlutverki.

Fyrir ári benti HSS á þá staðreynd að samkvæmt skýrslu Deloitte fylgdu 88% af rekstrarútgjöldum HSS þróun launa og 12% þróun vísitölu neysluverðs (3). Þá var einnig goldinn varhugur við því, eins og áður segir, að fjölgun íbúa á Suðurnesjum væri hröð og því stefndi í óefni ef ekki yrði brugðist við vanda stofnunarinnar strax. 

Minni sóun í heilbrigðiskerfinu myndi draga úr vanfjármögnun stofnana

Samkvæmt nýrri skýrslu Deloitte hefur vandinn versnað frá síðasta ári eins og áður segir og er vandanum velt að hluta yfir á samfélagið í heild sinni þar sem skjólstæðingar HSS þurfa að sækja í dýrari úrræði annars staðar vegna vanfjármögnunar stofnunarinnar. „Við sjáum óþarfa sóun í heilbrigðiskerfinu eins og í heimahjúkrun sem er vanfjármögnuð á HSS, þannig að það er vel hægt nýta skattpeninga betur en nú er gert. Sem dæmi má nefna að kostnaður HSS við hvern þjónustuþega í heimahjúkrun, sem ekki getur búið heima hjá sér nema með stuðningi, nam á síðasta ári um 1,3 m.kr. á ársgrundvelli meðan kostnaður án stoðþjónustu og húsnæðis á hvert sjúkrarými var 31,5 m.kr. 

Það getur því verið dýrkeypt fyrir samfélagið að fjármagna ekki hagkvæmustu úrræði heilbrigðisþjónustunnar þar sem þjónustuþegar leita eðlilega annað eftir þjónustu í staðinn, t.d. með því að leggjast inn á sjúkrahús. Ef hagkvæm úrræði eru ekki fullfjármögnuð, til dæmis heimahjúkrun, hefur það neikvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs sem gengur gegn meginstefi laga um opinber fjármál og snertir það hagsmuni allra landsmanna,“ segir Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS í tilkynningunni. Skýrslur endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte sýna svo ekki verður um villst, að fjárframlög ríkisins til heilbrigðismála á hvern íbúa á Suðurnesjum, að teknu tilliti til þróunar rekstrarkostnaðar, fara sífellt lækkandi. „Það hallar því enn meira á íbúa Suðurnesja en áður þegar kemur að heilbrigðisþjónustu og við verðum sem samfélag að kippa þessu í liðinn, því bara á rúmu ári hefur íbúum Suðurnesja fjölgað um 10%,“ segir Markús.

Lesa má skýrslu Deloitte um HSS hér en þar má finna frekari upplýsingar um fólksfjölgun á Suðurnesjum og fjármögnun stofnunarinnar.

Tafla 1 - Yfirlit um lykilstærðir þjónustusvæðis HSS síðustu 20 ár
2003 2023 Aukning í %
Brottfarir erlendra farþega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll 308.768 (4) 2.200.000 (5) 613%
Fjöldi íbúa á Suðurnesjum 1. janúar (6) 16.802 31.049 85%
Fjöldi vaktlína lækna, 24/7, 365 2 2 0%

Heimild (1): https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Bradathjonsta_a_Islandi.pdf

Heimild (2): https://www.landspitali.is/library/Sameiginlegar-skrar/Gagnasafn/Rit-og-skyrslur/Starfsemisupplysingar-LSH/2023/Starfsemisupplysingar_LSH_apr_2023_2.pdf?download=true

Heimild (3): https://www.hss.is/um-hss/frettasafn/auknar-fjarveitingar-i-heradi-draga-ur-soun-i-heilbrigdiskerfinu

Heimild (4): https://www.ferdamalastofa.is/is/gogn/fjoldi-ferdamanna/talningar-ferdamalastofu-i-flugstod-leifs-eirikssonar

Heimild (5): https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2022/12/02/7-8-milljonir-farthega-um-Keflavikurflugvoll-2023-/

Heimild (6): https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Ibuar/Ibuar__mannfjoldi__2_byggdir__Byggdakjarnarhverfi/MAN03250.px/table/tableViewLayout1/?rxid=b0108407-d2ef-4847-acb7-b70c9e8531a4